Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Komast ekki til hafnar vegna veðurs

27.11.2020 - 09:07
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Tvö skip sem koma áttu til Þorlákshafnar í morgun hafa orðið að seinka komu sinni vegna illviðris. Hjörtur Jónsson, hafnarstjóri Þorlákshafnar, segir að skipið Akranes hafi átt að koma klukkan átta í morgun en núna sé gert ráð fyrir að það komi ekki fyrr en um hádegi. Leiðindaveður er í Þorlákshöfn: „Suðvestan hraglandi og éljagangur,“ segir Hjörtur.

Skipin Hordaford og Akranes lögðu bæði af stað frá Færeyjum í gær. Nokkurra klukkutíma seinkun hefur orðið á ferð þeirra til Íslands vegna veðurs. 

Hjörtur segir að veðrið sé þokkalegt milli élja en það hvessi nokkuð mikið í éljum. Tveir dráttarbátar séu til taks og muni aðstoða Akranes við að sigla inn í höfnina. Bíða verði færis milli élja. 

Bæði skipin þurfa að leggjast að á sama stað á bryggjunni og því verði Hordaford að bíða, líklega til miðnættis, eftir að geta lagst að bryggju.