Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Katrín: „Ég hef áhyggjur af að sjá þessa fjölgun smita“

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Farið var yfir stöðu kórónuveirufaraldursins á fundi ráðherranefndar í gær. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir fyllstu ástæðu til að hafa áhyggjur af stöðu faraldursins. Fara þurfi hægt í afléttingu sóttvarnaaðgerða.

„Það er alveg ljóst að við hefðum kosið að vera á aðeins öðrum stað núna því við erum aftur farin að sjá þeim fjölga sem smitast sem er áhyggjuefni. Þannig að það var tekin ákvörðun í gær að bíða með að ákveða með framhaldið þangað til eftir helgi, þegar við höfum betri mynd á þróunina. En ég verð að segja það - ég hef áhyggjur af að sjá þessa fjölgun smita aftur,“ sagði Katrín  eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

Hún sagði að sóttvarnalæknir hefði verið á fundinum í gær og tillögur sem hann vann í byrjun vikunnar, miðað við þáverandi stöðu faraldursins, hefðu verið þar til umræðu.

„En staðan núna sýnir okkur hversu ófyrirsjáanleg veiran er, við verðum að einhverju leyti að temja okkur að þeim ófyrirsjáanleika sem býr í þessari veiru. Nú ætla ég ekki að segja nákvæmlega hverju má búast við, en ég get þó sagt það að eftir helgi munum við funda aftur. Núverandi aðgerðir eru í gildi til 2. desember þannig að við ættum að geta séð hvert stefnir strax eftir helgi. Hvort það þurfi að herða aðgerðir aftur - ég er ekki viss um það. En ég tel að þetta sýni að það þurfi að fara mjög hægt í afléttingar,“ sagði Katrín.