Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hæstiréttur tekur fyrir mál landamæravarðar

27.11.2020 - 13:38
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Hæstiréttur hefur fallist á áfrýjunarbeiðni landamæravarðar sem var sakfelldur fyrir að fletta upp í LÖKE-kerfinu án þess að hafa lögmætar ástæður til þess. Landamæravörðurinn telur að uppflettingarnar falli ekki undir hegningarlög þar sem þær hafi ekki verið henni eða öðrum til ávinnings né hallað réttindum annarra. Ríkissaksóknari lagðist ekki gegn beiðninni en benti á að í dómi Landsréttar væri skýr og vel rökstudd niðurstaða um álitaefnið.

Málið hefur tekið langan tíma en rannsókn þess hófst fyrir fjórum árum og brotin áttu sér stað fyrir fimm árum. 

Fyrir tveimur árum ómerkti Landsréttur dóm Héraðsdóms Reykjaness yfir landamæraverðinum sem hafði þá verið sektaður um hundrað þúsund krónur.  Málið fór því aftur í hérað þar sem dómurinn komst að sömu niðurstöðu. Landsréttur staðfesti síðan þann dóm í október.

Landamæravörðurinn var sagður hafa annars vegar flett upp fyrrverandi unnusta sínum og hins vegar konu sem hún kvaðst óttast. 

Í skýrslutöku hjá embætti héraðssaksóknara sagði hún að ástæðan fyrir þessum uppflettingum hefði líka verið forvitni. Hún tók þó alltaf skýrt fram að þessum upplýsingum hefði ekki verið miðlað áfram til annarra.