Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Gagnrýna tillögur um „neyslustýringarskatt“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Félag atvinnurekenda gagnrýnir harðlega tillögur starfshóps heilbrigðisráðherra um innleiðingu á efnahagslegum hvötum til að efla lýðheilsu. Starfshópurinn leggur til að álögur verði lagðar á gos- og svaladrykki, íþrótta- og orkudrykki og vatnsdrykki sem innihalda sítrónusýru þannig að verðið hækki um að minnsta kosti 20 prósent.

Engar álögur á sykraðar mjólkurvörur

Félagið gagnrýnir tillögurnar fyrir að hafa „ekkert innra, röklegt samhengi,“ og segir ýmislegt benda til þess að skatturinn sé alls ekki sykurskattur heldur einnig hugsaður sem tannverndunarskattur. Því sé réttast að kalla hann „neyslustýringarskatt“.

Það skjóti skökku við að starfshópurinn vilji ekki leggja skatt á mjólkurvörur þótt þær séu sumar dísætar. Starfshópurinn rökstyður það með því að mjólkurvörur veiti ýmis næringarefni. 

Vilja hvetja til vatnsdrykkju

Starfshópurinn leggur til að samkvæmt tillögu embættis landlæknis verði verð sykurlausra drykkja sem innihalda sítrónusýru hækkað með sama hætti og sykraðra drykkja, enda liggi fyrir að sykurlausir gosdrykkir viðhaldi löngun í sætt bragð og innihaldi ýmsar sýrur, líkt og sykraðir drykkir, sem hafa glerungseyðandi áhrif. „Það er því ekki talið æskilegt að neyslan færist yfir í sykurlausa gosdrykki sem gæti gerst verði þeir ódýrari valkostur, heldur að hvatinn verði til meiri vatnsdrykkju með eða án kolsýru. Kolsýrt vatn án sítrónusýru (E330) er góður kostur í stað gos- eða svaladrykkja,“ segir í skýrslu starfshópsins. 

Órökstutt að álögur á drykki séu í forgangi

Félag atvinnurekenda segir það einnig órökstutt af hálfu nefndarinnar hvers vegna álögur á drykkjarvörur séu settar í forgang, þrátt fyrir að í skýrslunni segi að sælgæti, próteinstykki, kex, kökur og sætabrauð eigi jafnmikla hlutdeild í sykurneyslu fólks.

Í bréfi félagsins til heilbrigðisráðherra segir að tillögurnar séu misráðnar og illa rökstuddar. „Tillögurnar virðast bera vott um að höfundar þeirra hafi lítinn skilning jafnt á rekstri fyrirtækja og stjórnsýslunnar,“ segir þar. 

Segja tillögurnar byggja á úreltum gögnum 

Félag atvinnurekenda segir tillögurnar byggja á gömlum og úreltum tölum og í bréfi til ráðherra kemur fram að félagið hafi fjórum sinnum boðið fram aðstoð sína við að leiða fram réttar tölur um þróun sykurneyslu landsmanna. Auk þess gagnrýnir félagið samráðsleysi við gerð tillaganna og segir starfshópinn ekki hafa leitað eftir sölutölum um gosdrykki. „

„Þess í stað styðst hópurinn við gömul gögn Landlækniembættisins, auk frumniðurstaðna úr mataræðiskönnun, sem ekki hafa verið birtar opinberlega og engin leið er að sannreyna,“ segir í bréfinu.

 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV