Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Frumvarpið afgreitt óbreytt úr allsherjarnefnd

27.11.2020 - 19:52
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Allsherjar og menntamálanefnd lauk afgreiðslu sinni á frumvarpi um lög á verkfallsaðgerðir flugvirkja nú undir kvöld.

Á fund nefndarinnar komu fulltrúar dómsmálaráðuneytisins og fjármálaráðuneytsisins auk fulltrúa frá Flugvirkjafélagi Íslands, ríkissáttasemjara  og Landhelgisgæslunnar. Þá kom Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra einnig fyrir nefndina. 

Í umsögn Flugvirkjafélags Íslands til nefndarinnar eru alvarlegar athugasemdir gerðar við að endi verði bundinn á verkfallsaðgerðirnar með lagasetningu. Með henni sé vegið að samningsfrelsi og verkfallsrétti félagsins með þeim hætti að stangist á við stjórnarskrá og alþjóðasamninga.

Í nefndarálitinu er vísað til kjaradeilu flugvikja við Icelandair árið 2010 og til nefndarálits samgöngunefndar frá þeim tíma þar sem segir: 

„Meiri hlutinn tekur fram að það er grundvallarregla að aðilar kjarasamninga ljúki samningum sín í milli. En þegar brýna nauðsyn ber til getur komið til þess að íhlutun ríkisvaldsins sé réttlætanleg.“

Í áliti allsherjar og menntamálanefndar segir

„Um nauðsyn frumvarpsins sem hér er til umfjöllunar kemur fram í greinargerð að verkfallsaðgerðirnar hafi nú leitt til þess að engin starfhæf þyrla eða flugvél sé til taks hjá Landhelgisgæslu Íslands. Það sé neyðarástand sem varði bæði sjófarendur og almenning. Í erindi Landhelgisgæslunnar til nokkurra ráðuneyta og ríkislögreglustjóra frá 18. nóvember sl. kemur fram að verði engin björgunarþyrla til taks í landinu skapist grafalvarlegt ástand, einkum fyrir áhafnir og farþega skipa þegar engar aðrar bjargir eru nálægar á hafi úti. Nefndin hefur skilning á sjónarmiðum um mikilvægi samningafrelsis og verkfallsréttar og telur að almennt sé ekki æskilegt að löggjafinn grípi inn í kjaradeilur með lagasetningu. Þó kunni slík inngrip að vera nauðsynleg. Í því tilviki sem hér er til umfjöllunar telur nefndin að brýn nauðsyn sé fyrir hendi og að öryggissjónarmið réttlæti lagasetninguna. Að því sögðu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.“ segir í áliti nefndarinnar.

Önnur og þriðja umræða fer fram á Alþingi í kvöld. Hún átti að hefjast nú á áttunda tímanum en ráðgert er að atkvæðagreiðsla fari fram um kl 21:30.