Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Flugvirkjar segja lagasetningu bera vott um offors

27.11.2020 - 16:59
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Flugvirkjafélag Íslands gerir alvarlegar athugasemdir við lagasetningu á verkfall þeirra í umsögn um frumvarp dómsmálaráðherra sem nú er til umræðu á Alþingi. Félagið segir lagasetninguna bera vott um offors samninganefndar ríkisins og ráðherra.

„FVFÍ gerir alvarlegar athugasemdir við aðdraganda þess að frumvarpið er lagt fram á Alþingi og við efni frumvarpsins. Er einsýnt að frumvarpið mun ef að lögum verður brjóta í verulegu gegn samningsfrelsi og verkfallsrétti FVFÍ sem stéttarfélags og þar með m.a. gegn réttindum FVFÍ og félagsmanna þess sem varin eru af stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu. Samningsgrunnur kjarasamnings FVFÍ við Landhelgisgæslu Íslands hefur verið sá sami a.m.k. frá árinu 1982 og hefur innihaldið m.a. ákvæði um að kjör flugvirkja hjá stofnuninni fari samkvæmt aðalkjarasamningi FVFÍ, þ.e. kjarasamningi um kjör flugvirkja og félagsmanna FVFÍ sem starfa hjá Icelandair.“ segir í umsögninni.  

Þá er samsetning samninganefndarinnar einnig gagnrýnd.

„Samninganefnd ríkisins samanstendur af einstaklingum sem allir eru starfsmenn fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Af þessu verður ekki önnur álytkun dregin en að sú afstaða sem komið hefur fram af hálfu samninganefndarinnar sé beinlínis sama afstaða og fjármála- og efnahagsráðherra hefur í deilunni. Megin ágreiningurinn í kjaradeilu aðila nú er ekki í eðli sínu flókinn, en hann snýst um það að FVFÍ vill viðhalda framangreindri kjarasamningstengingu og samningsgrunni,“ segir í umsögninni. 

Þá mótmælir félagið því sem þeir kalla gerræði stjórnvalda að setja lög á verkfallsaðgerðir og að stjórnvöld hafi ekki átt í neinu samtali við félagið.

„Frumvarpið ber að mati FVFÍ vott um það offors sem gripið hefur samninganefnd ríkisins og ráðherra í þeirri viðleitni sinni að afnema kjarasamningstenginguna. Þegar FVFÍ vill ekki fara að vilja viðsemjanda síns eru lög keyrð í gegnum þingið til þess að knýja á um að farið sé að samningskröfum ríkisins. FVFÍ mótmælir þessu gerræði ríkisvaldsins harðlega. Þá harmar FVFÍ það algjöra samráðsleysi sem ráðherrar ríkisstjórnar hafa viðhaft gagnvart FVFÍ í þessari kjaradeilu, verkfallsaðgerðum og í aðdraganda framlagningar frumvarpsins. Þau vinnubrögð eru andstæð vinnubrögðum fyrri ríkisstjórna í kjaradeilum sem FVFÍ hefur átt aðkomu að og þar sem á verkfallsréttinn hefur reynt.“

Félagið segir jafnframt að lagasetningin gangi í berhögg við stjórnarskrárvarin réttindi og sé í bága við ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu. Undir umsögnina skrifa Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands.