Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fimm funheit og firnasterk á föstudegi

Mynd með færslu
 Mynd: Altin Gün - Ordunun Dereleri

Fimm funheit og firnasterk á föstudegi

27.11.2020 - 12:00

Höfundar

Sumir halda að það sé ekki of snemmt fyrir jólalög en það er náttúrlega bara leiðindamisskilningur skapaður af ósvífnum kapítalistum og örvæntingarfullu stemmningsfólki. Fimman heldur sínu striki þrátt fyrir jólalagapressuna og býður upp á nýja tónlist frá stuðpésunum í Django Django, vinnualkanum BC Camplight, hressu krökkunum í Mogwai, súrkálsþjóðlagakrökkunum í Altın Gün og sólarslagara frá því í sumar frá Sault.

Django Django – Glowing In the Dark

Það kemur ný plata frá hressu Lundúnastrákunum í Django Django í byrjun næsta árs sem hefur fengið nafnið Glowing in the Dark. Titillagið er frekar massíft stuðlag og minnir á þeirra bestu dansrokksspretti og kannski líka smá á Hot Chip. Samkvæmt síðasta skeyti sem barst frá sveitinni fjallar platan um að flýja örvæntingu, smábæjarlíf og jörðina – við verðum bara vona að það sé í lagi með þá.


BC Camplight – Back To Work

Plata bandaríska tónlistarmannsins BC Camplight, Shortly After Takeoff sem kom út fyrr í ár, er að byrja detta inn á lista hjá nördum sem ein af þeim betri á pestarárinu mikla. Brian Christinzio er maðurinn á bak við verkefnið og gat þess vegna valið Back To Work sem fyrsta söngul af plötunni sem hann vill meina að sé hans langbesta plata (en það er algengt ástand við útgáfu hjá tónlistarfólki).


Mogwai – Dry Fantasy

Hressu krakkarnir í Mogwai eru búnir að hella upp á sína tíundu plötu sem heitir As Love Continues og kemur út í febrúar. Þó þeir verði nú seint skilgreindir sem vinsældapopp þá hafa þeir aldrei verið jafn vinsælir og miðað við gengi síðustu tveggja platna og gæðin á fyrsta sönglinum, Dry Fantasy, er líklegt að nýja platan skili þeim í fyrsta skipti fyrsta sætinu á skoska vinsældalistanum.


Altın Gün – Ordunun Dereleri

Amsterdambandið Altın Gün, sem sérhæfir sig í súrrandi súrum sækadelíuþjóðlagadiskóbræðingi með framúrskarandi árangri (síðasta plata þeirra Gece fékk Grammy-tilnefningu), hefur sent frá sér fyrsta söngul af plötu sinni Yol. Ordunun Dereleri er endurgerð þeirra á tyrknesku þjóðlagi sem fjallar um örlög forboðinna ásta örvæntingfulls pars en myndbandið er meðal annars tekið upp í hollenskum skógi.


Sault – Wildfires

Fyrr í ár átti gagnrýnandi Guardian ekki orð yfir snilld leynihljómsveitarinnar Sault og gæðum breiðskífna þeirra á árinu. Untitled (Black Is), sem fær mikið hrós, inniheldur meðal annars lagið Free sem hefur komið hér við sögu áður en Wildfire er á Untitled (Rise) sem þykir víst ekki mikið síðri. Nú hefur hin stórskemmtilega tónlistarstöð BBC 6 Music tekið undir þetta ásamt Rough Trade og valið plötu þeirra, Black Is, þá bestu á árinu auk þess sem báðar er að finna á hinum ýmsu listum. Hljómsveitin spilar svokallað Neo Soul og er í pólítískari kantinum og umfjöllunarefnin oft staða svarta mannsins í Bretlandi.


Fimman á Spottanum