Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Einu matvöruversluninni á Kirkjubæjarklaustri lokað

27.11.2020 - 15:49
Mynd með færslu
 Mynd: Skaftárhreppur
Einu matvöruversluninni á Kirkjubæjarklaustri verður lokað um áramót þegar verslunin Kjarval verður lögð niður. Oddviti Skaftárhrepps segir þetta mikið högg fyrir samfélagið og færi þjónustustigið mörg ár aftur í tímann.

Festi hf., eigandi Kjarvalsverslananna, tilkynnti sveitarstjórn Skaftárhrepps á þriðjudaginn að versluninni yrði lokað um áramót. Á fundi sveitarstjórnar í gær var þessi ákvörðun harðlega gagnrýnd og einkum þessi stutti fyrirvari.

Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja mikil

„Af því að þetta er á tímum þar sem samfélagsleg ábyrgð er mikilvægasti þáttur í öllum rekstri allra fyrirtækja þá finnst okkur svolítið komið aftan að okkur hvað varðar tíma,“ segir Eva Björk Harðardóttir oddviti Skaftárhrepps.

Vond staða þar sem það taki tíma að opna nýja verslun

Hún segir lítið hægt að segja ef einkafyrirtæki kjósi að breyta sínum rekstri. Það verði þó að gera sér grein fyrir því að verslunin þjónar íbúum á stóru landsvæði og ótækt að þar sé engin matvöruverslun. Næsta verslun er í 70 kílómetra fjarlægð í Vík. „Þetta setur okkur í mjög erfiðar aðstæður vegna þess að við þurfum tíma til þess að semja við annan aðila til þess að koma á svæðið og það tekur tíma að koma upp nýrri verslun.“

Kemur ekkert í staðinn fyrir að fara út í búð eftir vörum

Eva segir að í stað verslunar á staðnum hafi þeim verið boðið að versla í gegnum Snjallverslun Krónunnar, en Kjarval er hluti af krónunni. Það sé ekki ásættanleg þjónusta. „Það er verið að bjóða okkur upp á að fara tvær ferðir í viku og ná í vörur. Það kemur ekkert í staðinn fyrir að fara út í búð og sækja það sem okkur vantar. Þetta er ákveðin leið til að koma til móts við hluta af þörfum hjá hluta af íbúum sveitarfélagsins. En það kemur enganveginn í staðinn fyrir verslun.“

„Geysilegt högg fyrir samfélagið“

„Þetta er geysilegt högg fyrir samfélagið,“ segir Eva. „Og við gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að brúa þetta og reyna að koma upp verslun sem allra fyrst.“ Og hún segir að lokum verslunarinnar komi í kjölfar fleiri þjónstuþátta sem hafi horfið úr sveitarfélaginu síðustu ár. „Við misstum pósthúsið okkar. Í dag er okkur sinnt með bíl sem keyrir á milli, þannig að við erum með ákveðna þjónustu en pósthúsið okkar er ekki lengur í boði. Við misstum bankann okkar. Nú er í boði hraðbanki og takmarkaður aðgangur að þannig þjónustu. Og næst er það verslunin.“