Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ein hópuppsögn í nóvember – 35 sagt upp

27.11.2020 - 11:57
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Vinnumálastofnun hefur borist ein tilkynning um hópuppsögn í nóvember. 35 starfsmönnum fjármálafyrirtækis var sagt upp. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri stofnunarinnar, segir að tilkynningar geti áfram borist í dag og á mánudag.

Í samtali við fréttastofu segir Unnur að fjöldi þeirra sem hafi bæst á atvinnuleysisbótaskrá í nóvember sé í samræmi við það sem stofnunin spáði. Samkvæmt nýjustu spá Vinnumálastofnunar verður atvinnuleysi 10,6 prósent í nóvember. 

Aðspurð segir hún að það hafi tekist vel að halda markmiði stofnunarinnar um þjónustuviðmið síðustu vikur; að umsækjendur þurfi ekki að bíða lengur en 4-6 vikur eftir fyrstu greiðslu úr atvinnuleysistryggingasjóði. Nú fari nokkur vinna í það að breyta tölvukerfum í samræmi við breytingar á bótaupphæðum og lengingu bótatímabilsins sem ríkisstjórnin hefur boðað.