Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Annar hluti Íslandskynningar að fara í loftið

Mynd: - / Íslandsstofa
Annar hluti auglýsingaherferðar, sem miðar að því að kynna Ísland sem áfangastað fyrir ferðamenn, fer í loftið eftir rúma viku í Bandaríkjunum og Evrópu. Fagstjóri hjá Íslandsstofu segir að eftir jákvæðar fréttir af bóluefni hafi stöðugt fleiri slegið inn leitarorðið Ísland á netinu, en samkeppnin við aðra áfangastaði sé þó hörð.

Eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á ákváðu stjórnvöld að ráðast í markaðsátak til þess að kynna Ísland sem áfangastað, og verja til þess einum og hálfum milljarði. Fyrsti hluti herferðarinnar fór í loftið í sumar, en þar var útlendingum boðið að taka upp eigin öskur sem heyrðust síðan úr hátölurum á sjö stöðum á Íslandi.

8. desember næstkomandi fer svo næsti hluti herferðarinnar í loftið.

„Þetta er bara næsta aðgerð í þessu stóra markaðsverkefni, Ísland saman í sókn, sem hófst í vor. Aðgerðir hafa miðað að því að viðhalda áhuga á áfangastaðnum á meðan ferðatakmarkanir eru í gildi. En svo erum við einnig tilbúin með aðgerðir í janúar og erum síðan að undirbúa stórar aðgerðir sem fara í gang þegar bókanir og ferðir hefjast á ný,“ segir Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu, útflutningur og fjárfestingar hjá Íslandsstofu.

Þannig að þessi hluti núna, hann er aðallega til þess að minna á Ísland?

„Já það er mjög mikilvægt að viðhalda áhuga á áfangastaðnum. Og við erum í harðri samkeppni. Við sjáum að leitarfyrirspurnir eru að aukast töluvert, í kjölfarið af fréttum af bóluefni. En leitarfyrirspurnum er líka að fjölga varðandi aðra áfangastaði. Þannig að þetta er mjög mikilvægt.“

Tilbúin með stóra herferð

Herferðin mun fyrst og fremst birtast á samfélagsmiðlum og öðrum stafrænum miðlum, aðallega í Bandaríkjunum og Evrópu.

En með þessari herferð, þá eruð þið ekki að ætlast til þess að fólk panti sér flug til Íslands strax á morgun?

„Nei. Við erum farin að sjá að fólk er farið að leita meira, en bókanir eru ekki hafnar af krafti. En þegar það mun gerast ætlum við að vera tilbúin með stóra herferð,“ segir Sigríður Dögg.