Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vonbrigði að smit séu rakin til verslunarmiðstöðva

26.11.2020 - 12:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir það vonbrigði, sem fram kom i máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi Almannavarna í dag, að kórónuveirusmit hafi verið rakin til stórra verslunarmiðstöðva síðustu daga.

Þórólfur varaði við því á fundinum að fólki væri smalað inn í stórar verslanir. „Það getur ýmislegt gerst þar svo ég hef ákveðnar áhyggjur af því,“ sagði hann. 

„Við höfum verið að vona það og leggjum enn áherslu á að það verði tekið tillit til stærðar verslana þegar nýjar reglur verða birtar. Við höfum líka verið að vona að það verði slakað á þessum fjöldatakmörkunum. Við megum ekki gleyma því að það er langmikilvægasti tími ársins sem stendur yfir í verslun á Íslandi,“ segir Andrés. 

Hann segir að netverslun komi aldrei í stað hefðbundinnar verslunar og aðspurður segist hann telja ólíklegt að hægt sé að auka afköst í netsölu. „Það er vandséð að það verði gert því fjöldatakmarkanir eiga líka við í fyrritækjum sem eru að dreifa vörum fra verslunum. Svo það eru ýmsar hindranir þar í vegi,“ segir hann. 

Spurður hvort það breyti afstöðu samtakanna, að nú sé ljóst að smit hafi borist milli fólks í verslunum á síðustu dögum, segist  hann ekki geta tjáð sig um það. „Það er sóttvarnayfirvalda að taka þessar ákvarðanir,“ segir hann.