Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Vill sömu undanþágur fyrir framhaldsskólanema

26.11.2020 - 16:12
Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Menntamálaráðherra vill að sömu undanþágur gildi fyrir framhaldsskólanemendur og nemendur á unglingastigi grunnskóla þannig að þeim verði tryggt staðnám. Þetta sagði ráðherra á Alþingi í dag.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur um nokkra hríð talað á þessum nótum þótt framhaldsskólanemendur séu enn heima. Málefni þeirra hafa verið í brennidepli upp á síðkastið þar sem bæði foreldrar og nemendur hafa vakið athygli á stöðu þessara ungu nemenda í fjarnámi.

Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, spurði menntamálaráðherra um þessi mál í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

„Það kom neyðarkall frá foreldrafélagi MS-inga Menntaskólanum við Sund. Dagleg rútína er fokin og jafnvel afburðanámsmenn eru af foreldrum sagðir vera að falla í áföngum og úr námi. Þetta er upplifun foreldra sem búa með börnunum en hitta þau ekki bara á fjarfundum örsjaldan í viku,“ sagði Helga Vala.

Lilja svaraði og sagði að sannarlega væri barist fyrir því að tryggja staðnám í framhaldsskólum. „Ég er alveg sannfærð um að háttvirtur þingmaður hefur allan hug og er algjörlega sammála mér í því að nú erum við að fara inn í það að það séu ákveðna undanþágur og að sömu undanþágur gildi um framhaldsskólastigið og unglingastigið.“

„Ég vil líka upplýsa háttvirtan þingmann um það að það er svo sannarlega barist fyrir því að tryggja staðnám,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir.

Atvinnuleysi var einnig rætt á Alþingi í dag. Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra flutti munnlega skýrslu um stöðu mála á vinnumarkaði á tímum COVID-19 og sú umræða stendur enn.

Ásmundur Einar sagði það óheiðarlegt að viðurkenna ekki að heil atvinnugrein, ferðaþjónustan, hefði hrunið vegna faraldursins en hún muni rísa á ný. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata benti á að helmingur allra atvinnulausra væru erlendir ríkisborgarar og þeir væru ekki sérstaklega ávarpaðir í aðgerðum stjórnvalda.