Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Vara við svikaherferðum í nafni flutningafyrirtækja

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV/Landinn
Netöryggissveitin CERT-IS varar við svikaherferðum í tengslum við stóra netverslunardaga. Í nýrri tilkynningu frá netöryggissveitinni segir að síðustu daga hafi borið á svikaherferðum í nafni flutningafyrirtækja í tengslum við stórtilboðsdaginn 'dag einhleypra' þann 11. nóvember.

Svikarar nýti sér gjarnan tilboðsdaga sem þennan til að hrinda af stað svikaherferðum og að búast megi við fleiri herferðum í tengslum við 'svartan föstudag' og 'netmánudag'. Þær gangi þannig fyrir sig að notandi sé minntur á að greiða sendingarkostnað vegna nýlegra vörukaupa í gegnum falska vefsíðu. Síðurnar verði sífellt trúverðugri og því geti reynst erfitt að greina svikasíður frá raunverulegum greiðslusíðum. 

„Áður en kreditkortanúmer er gefið upp er því gott að staldra við og hugsa hvort það sé eitthvað sérkennilegt við greiðslusíðuna eða tilkynninguna,“ segir í tilkynningu netöryggissveitarinnar. Skynsamlegt sé að hafa beint samband við flutningsfyrirtækið, komi upp vafi um réttmæti greiðslukröfu. Merki um svikaherferðir geti verið málfars- eða stafsetningarvillur, mikil tímapressa á greiðslur og óljósar upplýsingar um það hvað verið sé að rukka fyrir.