Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tveir milljarðar í framkvæmdir við flugstöð og flughlað

Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Við uppfærslu á gildandi samgönguáætlun er gert ráð fyrir tveimur milljörðum króna svo hægt verði að bjóða út framkvæmdir við nýja flugstöð og flughlað á Akureyrarflugvelli. Hönnun þessara verkþátta lýkur á fyrstu mánuðum næsta árs.

Í september hófust framkvæmdir við nýtt eldsneytisbirgðasvæði og skólphreinsistöð á Akureyrarflugvelli. Hvort tveggja tilheyrir framkvæmdum við nýtt flughlað.

Nýtt eldsneytisbirgðasvæði og skólphreinsistöð

„Núverandi eldsneytisbirgðasvæði er á stað sem á eftir að skipta um jarðveg og fergja. Þannig að það liggur á að koma eldsneytisbirgðasvæðinu yfir á nýtt flughlað,“ segir Hjördís Þórhallsdóttir, flugvallarstjóri á Akureyrarflugvelli. Rotþró hefur hingað til verið á vellinum þar sem flugvallasvæðið er ekki tengt holræsakerfi Akureyrarbæjar. Hún verður nú aflögð með tilkomu nýrrar skólphreinsistöðvar. „Það er miklu umhverfisvænna heldur en að vera með rotþró,“ segir Hjördís.

Vinna við neðra burðarlag flughlaðs fram á næsta sumar

Þessum verkþáttum lýkur um ármót en í desember segir Hjördís áformað að opna tilboð í framkvæmdir við neðra burðarlag í nýju flughlaði. „Og það verk mun vera það stórt að það er áætlað að það taki alveg fram á næsta sumar að klára þann hluta.“ Fullnaðarhönnun flughlaðsins á að ljúka í febrúar. Mannvit og Arkís hófu hönnun á viðbyggingu og breytingum á flugstöð í sumar og áætlað er að því ljúki í mars.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Geir Ólafsson

Tveir milljarðar í flugstöð og flughlað 2021 og 2022

Þá verða fullnýttar 515 milljónir króna sem runnu til Akureyrarflugvallar í aðgerðum stjórnvalda til að verjast samdrætti vegna faraldursins. Til að tryggja fjármuni svo halda megi þeim verkefnum áfram, er á Alþingi unnið að uppfærslu á gildandi samgönguáætlun. Þar er meðal annars gert ráð fyrir 700 milljónum króna í byggingu flugstöðvar á Akureyri árið 2021 og 1,3 milljörðum í flughlað árin 2021 og 22. Með þessu á að tryggja að hægt verði að bjóða út framkvæmdir við bæði þessi verk.