Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Þrumur og eldingar frá hádegi fram á nótt

26.11.2020 - 23:53
Mynd með færslu
 Mynd: Elijah Hiett
Vonskuveður er víða um land. Appelsínugular og gular viðvaranir eru í gildi um nær allt landið, þó ekki á Austurlandi og Austfjörðum. Gengið hefur á með heilmiklum éljahryðjum og þeim hafa fylgt þónokkrar eldingar á vestanverðu landinu, nú síðast yfir höfuðborgarsvæðinu á tólfta tímanum og yfir Skeiðarársandi laust fyrir miðnætti. Páll Ágúst Þórarinsson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segist hafa talið 20 eldingar á eða við landið vestanvert og austur á Skeiðarársand síðan um hádegið.

Páll segir þetta fylgja kalda og óstöðuga éljaloftinu í kjölfar skilanna sem fóru yfir landið í nótt sem leið. Páll segir þetta ekki algengt, en nú séu einfaldlega kjöraðstæður fyrir skruggur og þrumufleyga af þessu tagi. Í miðnæturfréttum útvarps sagði Páll að búast mætti við einhverjum lofteldum á sunnanverðu landinu frameftir nóttu.

Á morgun er spáð allhvassri eða hvassri suðvestanátt og áfram  verða él. Það lægir snemma á laugardag. Skárra veðri er spáð á austanverðu landinu, yfirleitt hægari vindi þar og úrkomulitlu.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV