Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þór og Týr í viðbragðsstöðu á hafinu við Ísland

26.11.2020 - 15:43
Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæsla Íslands
Varðskipin Týr og Þór verða til taks suður og norður af landinu til að bregðast við ef þörf krefur, meðan engin björgunarþyrla eða flugvél er tiltæk. Áhöfn Týs var kölluð út í morgun og leggur úr höfn í Reykjavík um kvöldmatarleytið.

Ætlunin er að Týr sigli til Vestmannaeyja til að vera tiltækur á suðvestanverðum Íslandsmiðum. Í gær voru ríflega 200 skip og bátar sýnileg í kerfum stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar. Af þeim voru 89 íslensk.

Varðskipið Þór er við eftirlit norður af landinu en áhöfn hvors skips telur átján manna áhöfn sérþjálfaða til björgunarstarfa. Ætlunin er að varðskipið Týr verði til taks á meðan skert viðbragð er úr lofti.

Varðskipin verða til taks á hafinu næstu daga ef á þarf að halda auk þess sem séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar er í viðbragðsstöðu. Í tilkynningu frá gæslunn kemur fram að afar brýnt þyki að auka viðbragð á sjó vegna þeirrar stöðu sem uppi er. 

Varnarmálasviði Landhelgisgæslunnar er ætlað að tryggja yfirsýn yfir staðsetningu allra erlendra skipa og flugvéla umhverfis landið svo hægt verði að leita aðstoðar þeirra við leitir og björgun ef þörf krefur.