
Skipstjórnarmenn hjá Samherja segjast án málsvara
„Félagið okkar hefur dæmt sig úr leik“
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu Samherja í dag. Þar segir afleitt að þeirra eigið stéttarfélag hafi ákveðið að kæra sinn eigin félagsmann. Þá segja þeir umfjöllun um málið gefa ranga mynd af lífinu til sjós.
„Það er ekki síður afleitt að okkar eigið félag, Félag skipstjórnarmanna, lagðist svo lágt að kæra eigin félagsmann til lögreglu vegna framangreinds máls og er því beinn aðili að því. Fyrir vikið erum við skipstjórnarmenn án málsvara og stéttarfélags um þessar mundir um allt það er varðar aðbúnað og vinnulag um borð í fiskiskipum. Félagið okkar hefur dæmt sig úr leik í þeirri umræðu,“ segir í yfirlýsingunni.
Segja umræðuna hafa gefið ranga mynd af starfinu
Þeir segja umræðuna í samfélaginu um málið hafa dregið upp ranga mynd af raunveruleikanum til sjós. „Þau viðtöl sem birst hafa í sjónvarpi eftir svokölluð Sjópróf og sú umfjöllun sem hefur verið í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum síðustu daga gefa kolranga mynd af raunveruleikanum til sjós. Varpað hefur verið upp þeirri mynd að hreinlega sé farið illa með menn til sjós og að þeir séu réttlitlir eða réttlausir um borð. Slíkar rangfærslur er eitthvað sem við getum ekki sætt okkur við, því ekkert er fjær sanni.“
„Skipstjóri eða stýrimaður rekur engan til vinnu“
Í yfirlýsingunni segir einnig að skipstjórnendur vilji ekki leggja mat á mál skipstjóra Júlíusar Geirmundssonar og áhafnar hans. Það mál sé fordæmalaust og þarfnast ítarlegrar skoðunar. Það sé ljóst að engu verði áorkað á íslenskum vinnumarkaði árið 2020 með hótunum eða hervaldi. „Skipstjóri eða stýrimaður rekur engan til vinnu ef viðkomandi treystir sér ekki til þess. Það er hin gullna regla sem er í hávegum höfð til sjós.“