Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Sara Björk: „Þetta var slappt víti hjá mér“

Mynd: Mummi Lú / Mummi Lú

Sara Björk: „Þetta var slappt víti hjá mér“

26.11.2020 - 19:36
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta vann mjög mikilvægan 3-1 sigur á Slóvakíu í undankeppni EM 2022 í Bratislava í kvöld. Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði, var allt annað en sátt með fyrri hálfleikinn.

 

„Þetta var gjörsamlega svart og hvítt. Þetta var ótrúlega slakur fyrir hálfleikur. Við vorum eftir í öllu, návígi og pressu, og náðum ekki einu sinni að halda bolta innan liðs. Fundum þannig séð engar leiðir. En vorum búnar að tala um það að fá boltana út á kantana, fá fyrirgjafir, en einhvern veginn vorum við alltaf að missa boltann og náðum ekki að senda á samherja. Þetta var gjörsamlega skelfilegt en við snérum blaðinu við í seinni hálfleik og sýndum ótrúlegan karakter,“ segir Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði. Ísland var marki undir í hálfleik og átti í basli við Slóvaka í fyrri hálfleiknum. Allt annað var uppi á teningnum í seinni hálfleik en Ísland sótti stíft og fékk réttilega dæmdar tvær vítaspyrnur. Sara Björk tók báðar spyrnurnar en í fyrra vítinu lét hún verja frá sér. Vítaspyrnan var þó endurtekin þar sem markvörður Slóvaka var komin af vítalínunni þegar spyrnan var tekin.

„Það var hrikalega slappt víti hjá mér í fyrra vítinu. Ég er búin að bíða eftir því að fá vítaspyrnu í þessari undankeppni og svo að fá þrjár vítaspyrnur í einum leik. Sætt að geta skorað úr seinni tveimur spyrnunum,“ segir Sara Björk, sem er ánægð með íslenska liðið.

“Karakterinn í liðinu, að snúa þessu við eftir svona slakan fyrri hálfleik. Það sýnir bara hugarfarið og getuna í liðinu. Við erum einu skrefi nær markmiðinu okkar.”