Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Samningafundur í flugvirkjadeilunni stendur enn

Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Samninganefndir flugvirkja og ríkisins sitja á fundi hjá ríkissáttasemjara. Frá miðnætti hafa ekki komið upp nein tilvik þar sem þörf hefði verið á aðstoð þyrlu, en engin björgunarþyrla hefur verið til taks frá þeim tíma.

Fundurinn hófst klukkan níu og stendur enn. Engar fregnir er að hafa af gangi mála. Núna er engin björgunarþyrla tiltæk á landinu þar sem komið er að reglubundnu viðhaldi á Gró, sem var sú eina sem var í notkun. Sú vinna tekur að minnsta kosti tvo sólarhringa og um hana sjá spilmenn sem eru með flugvirkjamenntun. Þá er þyrlan Eir í stórri skoðun sem stöðvaðist þegar flugvirkjar fóru í verkfall fimmta nóvember.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur sagt að til greina komi að setja lög á verkfallið og segist Morgunblaðið hafa heimildir fyrir því að frumvarp um það sé tilbúið í ráðuneytinu.

Samkvæmt minnisblaði sem Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar sendi dómsmálaráðherra í vikunni stöðvast öll loftför Landhelgisgæslunnar 12. desember að öllu óbreyttu. Og þó svo að samningar tækjust í þessari viku yrði stofnunin samt ekki búin að koma rekstrinum í eðlilegt horf fyrr en um mánaðamótin janúar/febrúar.