Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Reyndist smitaður eftir óvæntan heimkomufögnuð

26.11.2020 - 13:38
Mynd: Landspítalinn / Landspítalinn
„Við höfum dæmi um einstakling sem var að koma til landsins og var að taka út sína fimm daga sóttkví og honum var haldið óvænt heimkomupartí. Síðan reyndist hann jákvæður í seinni skimun fimm dögum síðar,“ segir Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við fréttastofu.

„Það voru allir svo glaðir að fá viðkomandi heim, sem er náttúrulega bara eðlilegt, en ekki í samræmi við þær reglur sem eru í gildi,“ segir hann. Enn á eftir að koma í ljós hvort fólk hafi smitast en einhverjir þurftu að fara í sóttkví. „Það setti alla í erfiða stöðu,“ segir Rögnvaldur. 

Hann hvetur fólk til að fresta samkomum og segir að Almannavarnir hafi áhyggjur af því að fólk hittist of mikið og telji að smitin sem nú séu að greinast utan sóttkvíar megi rekja til samkoma um síðustu helgi.

Jólin verði öðruvísi en áður. „Við þurfum að hugsa hlutina upp á nýtt. Við getum ekki fylgt hefðunum okkar. Þótt það sé erfitt,“ segir hann.