Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rannsaka uppruna svifryks á götum Akureyrar

26.11.2020 - 13:56
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Hjá Akureyrarbæ hófst nýlega verkefni þar sem kanna á uppruna og efnasamsetningu svifryks á götum bæjarins. Markmiðið er að finna bestu aðferðir til að útrýma svifryki.

Akureyrarbær gerði samning við verkfræðistofuna Eflu sem mun sjá um framkvæmd þessarra rannsókna. Þegar er byrjað að taka sýni í þessum tilgangi.

Hugmyndin að taka sýni og greina innihaldið

„Hugmyndin er að taka raunveruleg sýni af götunum, þar sem þú sérð ryk eða drullu, og greina hvert innihaldið er, til að geta þá betur ráðist að rót vandans,“ segir Andri Teitsson, formaður umhverfis og mannvirkjaráðs Akureyrabæjar. Sýni verða tekin af götunum næstu mánuði og Andri segir æskilegt að það verði gert bæði sumar og vetur.

Svifrykið „mjög lúmskur óvinur“

Þetta geti til dæmis verið malbik sem molnar upp, grjótmulningur frá hálkuvörnum, slit frá hjólbörðum eða bremsuklossum og mold eða ryk sem berst annars staðar frá. „Grunnvandamálið er svifrykið. Og eins og hefur bara verið í fréttum núna enn og aftur, að það er talið að það valdi jafnvel 60 ótímabærum dauðsföllum á Íslandi árlega, sem eru rosalegar tölur. Þannig að þetta er mjög lúmskur óvinur,“ segir Andri.

Með betri upplýsingum megi sjá fleiri aðferðir til að nota

Þegar hafi ýmislegt verið gert til að sporna við svifryki á Akureyri. Nýr götusópur hafi verið tekinn í notkun og með honum eigi að hreinsa götur oftar en hingað til og þá sé farið að nota betri grjótmulning við hálkuvarnir. En með því að fá enn betri upplýsingar en nú liggja fyrir um hvað veldur svifryki verði hægt að sjá hvaða fleiri aðferðir er hægt að nota. „Geta þá verið með markvissari viðbrögð hvernig við eigum að ráðast á þetta.“