Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óperan býður upp á allt – nema bílaeltingaleiki

Mynd: RÚV / Íslenska óperan

Óperan býður upp á allt – nema bílaeltingaleiki

26.11.2020 - 11:08

Höfundar

„Fyrir mér er óperuformið alveg hið æðsta tjáningarform listarinnar,“ segir Aríel Pétursson sjóliðsforingi.

Íslenska óperan er 40 ára í ár. Af því tilefni er litið til baka og góðra stunda minnst. Þátttakendur úr ýmsum áttum deila minningum sínum og upplifun af óperum.

Aríel Pétursson sjóliðsforingi er mikill óperuunnandi.  „Óperuformið hefur allt,“ segir hann.  „Óperan er ekki bara tónlist, þar ertu með leiklistina, þar ertu með dansinn, þar ertu með sjóvið. Það er eiginlega allt nema kannski bílaeltingaleikir því það er erfitt að framkvæma það uppi á sviði. “

Hann á margar góðar minningar sem tengjast óperulistinni, en sérílagi eina þegar æskuvinur hans, Bjarni Frímann Bjarnason fékk sitt fyrsta verkefni sem stjórnandi hjá Íslensku óperunni og stýrði óperunni Toscu. „ Hann bauð mér að koma á forsýningu. Ég hafði einhverjum skyldum að gegna, minnir mig, í offíseraskólanum úti. Ég held ég hafi átt að vera þátttakandi í einhverju galakvöldi. Ég held ég hafi gert mér upp einhverja sullaveiki í fæti eða eitthvað og svo flaug ég bara til Íslands og mætti í smóking á forsýninguna.“

Þar sat hann svo með ekka og tár á hvörmum í gegnum alla sýninguna. „Það var eiginlega hálfpínlegt svona gagnvart þeim sem sátu í kringum mig í Hörpu. En þetta var þvílík upplifun og það jafnast einhvern veginn ekki á við nokkra kvikmynd eða leikrit að fara og upplifa list með þessum hætti. Fyrir mér er óperuformið alveg hið æðsta tjáningarform listarinnar.“

 

 

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Komst fyrst í tæri við óperulistina fyrir náð dyravarða

Klassísk tónlist

Varð samstundis ástfanginn af Carmen

Klassísk tónlist

Listform fyrir alla skynjun

Klassísk tónlist

„Þetta á eftir að verða drepleiðinlegt!“