Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Mannskætt óveður á sunnanverðu Indlandi

26.11.2020 - 03:38
Erlent · Hamfarir · Asía · Flóð · Indland · Óveður · Umhverfismál · Veður
epa08841367 A general view showing People walks through the flood water following heavy rains, in Chennai, India, 25 November 2020. Cyclone Nivar to make landfall in Tamil Nadu and in Puducherry on 25 November and 1,200 National Disaster Response Force (NDRF) personnel are on alert for any rescue work as India Meteorological Department also predicted heavy to very heavy rain in the affected area.  EPA-EFE/BABU
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Hitabeltisstormurinn Nivar tók land á suðurströnd Indlands í nótt, með meðalvindhraða upp á 36 metra á sekúndu og óhemjuúrhelli í farteskinu. Í héruðunum Tamil Nadu, Andhra Pradesh og Puducherry hefur nær 200.000 manns verið gert að yfirgefa heimili sín og forða sér í öruggt skjól í þar til gerðum neyðarskýlum. Vitað er um eitt dauðsfall af völdum óveðursins til þessa.

Hitabeltisstormurinn Nivar tók land á suðurströnd Indlands í nótt, með meðalvindhraða upp á 36 metra á sekúndu og óhemjuúrhelli í farteskinu. Í héruðunum Tamil Nadu, Andhra Pradesh og Puducherry hefur nær 200.000 manns verið gert að yfirgefa heimili sín og forða sér í öruggt skjól í þar til gerðum neyðarskýlum. Fjölmennt hjálparlið hefur verið sent á hamfarasvæðið og rafmagn tekið af nokkrum borgum til að fyrirbyggja tjón á dreifingarkerfinu.

Ein kona hefur látið lífið í óveðrinu svo staðfest sé og tjón á gróðri og mannvirkjum er þegar orðið umtalsvert. Tré hafa rifnað upp með rótum, ár flætt yfir bakka sína og aurskriður fallið. Stjórnvöld hafa lýst daginn í dag frídag og fyrirskipað að öllum verslunum, fyrirtækjum og stofnunum sem ekki sinna nauðsynlegustu þjónustu skuli lokað. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV