Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Litlar annir hjá björgunarsveitum í dag

26.11.2020 - 22:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Davíð Már Bjarnason upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir björgunarsveitarmenn hafa verið að störfum á Suðurnesjum í kvöld þar sem þakklæðningar losnuðu og fuku.

Davíð segir að einhverjir lausamunir hafi fokið í Þorlákshöfn núna á níunda tímanum í kvöld. Hann fagnar því þó hversu hefur lítið hefur þurft að bregðast við í veðurhamnum en hvetur fólk til að fylgjast áfram með tilkynningum um færð og veður, hið minnsta fram á morgun.

Vonskuveður er víða um land. Appelsínugular og gular viðvaranir eru í gildi um nær allt landið, þó ekki á austurlandi og austfjörðum. Veðurstofan spáir suðvestan stormi eða roki með dimmum éljum fram að miðnætti.

Mögulega fylgja eldingar með sumum éljahryðjunum. Á morgun er spáð allhvassri eða hvassri suðvestanátt og áfram verða él. Það lægir snemma á laugardag. Skárra veðri er spáð á austanverðu landinu, yfirleitt hægari vindi þar og úrkomulitlu.