
Leggja til 65 milljarða útgjaldaauka ríkissjóðs
Þetta er fimmta frumvarpið sem lagt er fram til fjáraukalaga á þessu ári. Stærsti einstaki útgjaldaliðurinn fellur undir liðinn Vinnumarkaður og atvinnuleysi, þar sem hartnær 44 milljarðar króna bætast við áður áætluð útgjöld.
Fjárheimildir vegna heilbrigðisþjónustu innan og utan sjúkrahúsa, hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu, lyfja- og lækningavöru, örorku og málefna fatlaðs fólks og málefna aldraðra hækka samtals um rúma 12 milljarða króna. Þá er gert ráð fyrir um 400 milljóna króna útgjöldum vegna kaupa á bóluefni gegn COVID-19 og 500 milljónum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu vegna þróunar bóluefna og dreifingar þeirra til ríkja heims, óháð greiðslugetu þeirra.
Heildarhækkun útgjalda vegna COVID er 156 milljarðar
Í greinargerð með frumvarpinu segir að rekja megi um það bil „156 milljarða, eða 93%, af heildaraukningu fjárheimilda á árinu til beinna eða afleiddra áhrifa af heimsfaraldrinum.“ Þar segir enn fremur að hækkunina megi að stærstu leyti rekja til mótvægisaðgerða stjórnvalda og hærri útgjalda vegna atvinnuleysis.
Í upprunalegri færslu var heildaraukning fjárheimilda á árinu sögð 144 milljarðar. Þetta hefur verið leiðrétt.