Harpa Jóns Kalmans er stillt öðruvísi en allra annarra

Mynd: - / RÚV

Harpa Jóns Kalmans er stillt öðruvísi en allra annarra

26.11.2020 - 13:40

Höfundar

Nýjasta skáldsaga Jóns Kalmans er stór og mikil og fjöltóna, en í lengri kantinum, segja gagnrýnendur Kiljunnar. „Maður er búinn að lesa eitthvað og bölsótast, ætlarðu nú ekki að fara að koma þér að efninu og svo allt í einu er maður bara farinn að brynna músum.“

„Hann þræðir okkur fram og aftur í tíma og á milli persónugallerísins sem er allt í firðinum,“ segir Sunna Dís Másdóttir um bókina Fjarvera þín er myrkur eftir Jón Kalman Stefánsson. „Hann er kominn með okkur aftur í sveitina. Minnir mig svolítið á bækurnar Sumarið bakvið brekkuna og þessar fyrstu bækur hans þar sem hann var í sveit. Nú erum við komin í fjörð fyrir vestan.“

Sögumaður bókarinnar er tilraunakenndur, segir Sunna Dís . „Hann rankar við sér í sveitakirkju, áttar sig ekki alveg á því hvar hann er staddur eða hreinlega hver hann er og þræðir sig síðan áfram í gegnum sveitina. Hittir þar fyrir fólkið sem þar býr og leiðir okkur inn og út úr sögum þeirra sem allar hverfast að einu eða öðru leyti um ástina, held ég að við getum sagt, með öllum sínum átökum og kvölum og hamingju sem fylgir.“

Harpa Jóns Kalmans er stillt á annan hátt en hörpur allra annarra, segir Þorgeir Tryggvason. „Hann fer yfir þessa sögu, setur á hana þetta glæsilega Kalmans-lakk sem hann einn ræður yfir, öll þessi fallegu orð um ástina og dauðann og harminn og djöfulinn. Og fyrir þá sem elska Jón Kalman þá held ég að það sé nú eiginlega það sem þeir eru að sækja í bókina.“

Bókin er hins vegar nokkuð löng og höfundurinn fer full hægt og rólega í sakirnar, segir hann. „Hann er svolítið lengi stundum að koma sér aftur að efninu eftir að hann er búinn að vera að leyfa þessum sögumanni að velta fyrir sér tilvist sinni. Það er alveg hægt að láta það fara svolítið í taugarnar á sér ... Maður er búinn að lesa eitthvað og bölsótast, ætlarðu nú ekki að fara að koma þér að efninu, og svo allt í einu er maður bara farinn að brynna músum.“