Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hagnaður stærstu útgerða jókst um helming milli ára

Fiskinet.
 Mynd: Gesine Kuhlmann - RGBStock
Hagnaður af rekstri tíu stærstu útgerðarfélaga landsins jókst um helming milli áranna 2018 og og 2019. Afkoma allra félaganna batnaði en arðgreiðslur drógust saman. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Heildarvelta útgerðanna tíu var 178 milljarðar króna árið 2019, sem er um 22 milljörðum eða 14 prósentum meira en 2018. Hagnaður þessara tíu stærstu útgerða landsins jókst hins vegar úr 19 milljörðum í 29 milljarða, eða um 52 prósent, segir í frétt Viðskiptablaðsins. Hagur þeirra allra vænkaði á milli ára og var hagnaður af rekstri þeirra allra.

Á sama tíma og hagnaður jókst um helming drógust arðgreiðslur saman um 40 prósent; voru 3,7 milljarðar í fyrra en 6,2 milljarðar árið 2018.

Tveir risar með helming veltu og hagnaðar

Tvær þessara tíu útgerða bera höfuð og herðar yfir hinar átta; Brim og Samherji. Velta Samherja var 50,5 milljarðar í fyrra, um 30 prósent heildarveltunnar, og Brim velti rúmlega 37 milljörðum. Samanlögð velta þessara tveggja risa er því um helmingur af heildarveltu tíu stærstu útgerðanna 2019.

Hagnaður þeirra nam tæpum 14 milljörðum, eða 47 prósentum af heildargróðanum, og arðgreiðslurnar voru samtals 2,5 milljarðar, eða um 68 prósent af heildararðgreiðslum ársins.

Lækkun krónunnar vegur upp á móti lægra afurðaverði

Haft er eftir Hauki Ómarssyni, sérfræðingi í sjávarútvegi hjá Landsbankanum, og Jónasi Gesti Jónssyni, yfirmanni sjávarútvegshóps Deloitte, að afkoma útgerðanna hafi verið verulega góð í fyrra, en Haukur telur hana ekki verða jafn góða í ár.

Báðir telja þeir að góð makrílveiði hafi vegið upp loðnubrest síðasta árs. Lækkun á gengi krónunnar vegur jafnframt upp lækkun fiskverðs erlendis af völdum kórónaveirufaraldursins, að mati Hauks.