Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hæsta timburhús landsins við Flensborgarhöfn

Mynd: - / RUV

Hæsta timburhús landsins við Flensborgarhöfn

26.11.2020 - 15:26

Höfundar

Hæsta timburhús landsins er fjögur þúsund fermetrar á fimm hæðum. Það stendur við Fornubúðir í Hafnarfirði og hýsir skrifstofur Hafrannsóknastofnunar. Mikil uppbygging er fyrirhuguð á svæðinu,

Skrifstofur Hafrannsóknastofnunar voru formlega opnaðar í sumar og marka upphafið að mikilli uppbyggingu á Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði samkvæmt rammaskipulagi. Hafnfirska arkitektastofan Batteríið hafði veg og vanda af hönnun hússins.

„Það var mikil áskorun að gera þetta smekklega hér í hjarta Hafnarfjarðar,“ segir Sigurður Einarsson, arkitekt hjá Batteríinu. „Við þurftum að brjóta upp þennan stóra massa sem 4000 fermetrar óneitanlega eru. Við horfðum dálítið til bryggjuhúsanna í Bergen, og í Þrándheimi eru svipaðar hafnarbyggingar. Við vorum að leita eftir þeim áhrifum þannig að þessi skali yrði manneskjulegri en ef þetta væri einn kassi. En við viljum heldur ekki bara herma eftir því sem vel hefur verið gert heldur leika okkur og bæta við það. Þess vegna eru þökin svolítið á ská og skjön og gluggasetningin óregluleg, svo það væri leikur í þessu.“

Steinsteypa hefur verið ríkjandi byggingarefni á Íslandi allt frá brunanum mikla í Reykjavík árið 1915. Með aukinni þekkingu og tækniþróun í burðarþoli og brunavörnum er timbur þó farið að ryðja sér til rúms á nýjan leik. Skrifstofur Hafrannsóknastofnunar eru gerðar úr krosslímdum timbureiningum, skammstafað KLT eða CLT upp á ensku. Verkið var unnið í samstarfi við fyrirtækið Strúktúr og austurríska framleiðandann Binderholz.

„Þessar krosslímdu timbureiningar eru mjög tregbrennanlegar, þótt þetta sé allt úr timbri því þetta er allt svo mikill massi. Ég tala nú ekki um ef maður er með vatnsúðakerfi sem er tilbúið að vökva þetta ef eitthvað gerist. Þetta er því ekkert mál brunatæknilega séð. Burðartæknilega er svona hús miklu léttara en steinhús. Þannig að það er margt sem styður að reisa svona timburhús og geta byggt svona hátt.“

Sigurður segir Hafnfirðinga hafa tekið húsinu vel.

„Í mín eyru hafa farið mjög góð orð. Auðvitað hefur maður heyrt að þetta sé of hátt en þess ber að geta að hér á eftir að verða mikil uppbygging. Við lítum svo á að fimm hæða byggingar séu það hæsta sem hægt er að fara í á svona þéttingarreitum, við höfum ekki viljað fara hærra.“

Fjallað var um bygginguna í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.