Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Færri sjúkdómar og billjónagróði með meiri náttúruvernd

26.11.2020 - 14:09
Mynd með færslu
 Mynd: Flickr
Það gæti reynst gróðavænlegt fyrir þjóðir heims að auka náttúruvernd og vernda fleiri land- og hafsvæði til muna. Alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið McKinsey birti nýverið niðurstöður sínar eftir útreikninga á efnahagslegum áhrifum þess að vernda um þriðjung af landi í heiminum og sama hlutfall hafsvæðis til að vernda náttúru jarðarinnar. Færri sjúkdómar, gífurleg fjölgun starfa, aukin landsframleiðsla og almennt betra vistkerfi gæti orðið niðurstaðan ef verndarsvæðin verða tvöfölduð að stærð.

Tvöföldun verndarsvæða skilar miklu

Niðurstöðurnar skýrslunnar, sem ber titilinn Aðferðafræði til að mæla ávinninginn af verndun náttúrugæða jarðarinnar (e. Valuing nature conservation – A methodology for quantifying the benefits of protecting the planet´s natural capital) og kom út nú í haust, benda sterklega til þess að það séu beinir efnahagslegir hvatar til þess að auka náttúruvernd til muna.

Hægt er að skoða helstu atriði skýrslunnar myndrænt á vel útfærðri heimasíðu fyrirtækisins hér. Þar segir meðal annars að með því að fjölga verndarsvæðum heimsins til muna - raunar tvöfalda núverandi svæði með tilliti til flatarmáls, mundi ýmislegt horfa til betri vegar á næstu níu árum.

McKinsey notast við eina af leiðum Sameinuðu þjóðanna til að sporna við eyðingu jarðarinnar, sem er tillaga um verndun 30% lands og 30% hafssvæða fyrir árið 2030. Sé stiklað á stóru yfir helstu niðurstöður, eru þær eftirfarandi: 

  • Losun koltvísýrings mundi minnka um 2,6 gígatonn á ári 
  • Um 650.000 störf í náttúruvernd skapast
  • Svæði dýra í útrýmingarhættu nær þrefaldast
  • Útbreiðsla veirusjúkdóma á borð við Covid-19 minnkar

Fram kemur í tilkynningu frá náttúruverndarsamtökunum Landvernd, sem stendur fyrir kynningu á skýrslunni í kvöld, að McKinsey hafi komist að því að það er ekki einungis ávinningur af náttúruvernd vegna þess að lífríkið er í sjálfu sér ómetanlega verðmætt, heldur séu sömuleiðis beinir efnahagslegir hvatar af því að vernda það. Duko Hopman, ráðgjafi hjá McKinsey og einn skýrsluhöfunda, kynnir niðurstöður hennar á fundi Landverndar í kvöld, fimmtudaginn 26. nóvember. Fundurinn er öllum opinn og hefst klukkan 19:30. Hann verður sendur út beint á Facebook síðu Landverndar. 

Hér er hægt að lesa skýrsluna, sem kom út í september 2020

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV