Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Áhyggjur af skömmum lánstíma viðbótar- og stuðningslána

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjármálafyrirtæki hafa almennt ekki tekið afstöðu til hvort endurfjármagna megi viðbótar- og stuðningslán. Iðulega er afstaða þeirra til endurfjármögnunar neikvæð en eftirlitsnefnd með lánum með ríkisábyrgð hefur í nýrri skýrslu lýst yfir áhyggjum af skömmum endurgreiðslutíma lánanna.

Lánstími viðbótar- og stuðningslána er 30 mánuðir fyrir lán undir 10 milljónum króna en 48 mánuðir fyrir hærri lán.  Í skýrslu nefndarinnar segir að sá skammi endurgreiðslutími minnki líkur á að lántakar uppfylli skilyrði um rekstrarhæfi að kórónuveirufaraldrinum yfirstöðnum. 

Einn viðskiptabankanna benti á að í samningum hans við Seðlabanka Íslands kæmi fram að lánin væru ætluð lífvænlegum fyrirtækjum og lánveiting byggði á trúverðugum rekstraráætlunum. Þar á bæ hefðu menn ekki mótað sér almenna afstöðu til mögulegrar endurfjármögnunar.

Í svörum annars banka kom fram að möguleg endurfjármögnun hefði ekki verið rædd og sá þriðji sagðist afdráttarlaust andvígur endurfjármögnun. Svar fjórða viðskiptabankans endurspeglaði áhyggjur hans af stuttum lánstíma, og þær hefðu síst minnkað í ljósi þróunar kórónuveirufaraldursins.

Þó hefði ekki verið mótuð almenn afstaða til endurfjármögnunar án ríkisábyrgðar og þætti það ótímabært enda óljóst hver geta fyrirtækja til endurgreiðslu yrði þegar þær ættu að hefjast í upphafi árs 2022. 

Einn þeirra sparisjóða sem nefndin leitaði svara hjá sagðist engar umsóknir hafa fengið um lán af þessu tagi og annar kvað af og frá að endurfjármagna lánin.

Sá þriðji sagði að hvert mál yrði tekið fyrir á eigin forsendum ef til kæmi. Í svörum fjórða sparisjóðsins sagði að líkur væru á að þörf yrði á endurfjármögnun viðbótar- og stuðningslána.