Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

11 smit á dag í marga daga er ávísun á vandræði

26.11.2020 - 17:03
Mynd: RÚV / RÚV
Thor Aspelund prófessor í tölfræði og forsvarsmaður spálíkans Háskóla Íslands segir að staðan sé mjög viðkvæm nú og að fjöldi smita utan sóttkvíar sé meiri en vonir stóðu til.

„Það stefnir í meiri virkni í samfélaginu í kringum jólin og þessar helgar framundan. Þá vorum við að vona að þetta væri komið vel niður á þessum tíma. Það stefndi alveg í þá átt, þetta var mjög jákvæð þróun, búið að ganga vel, það má ekki gleyma því,“ segir Thor.

Fólk á ferðinni aðalvandamálið

Hann segir að samkomur fólks séu aðalvandamálið jafnvel þó að þær séu innan marka. Samkomutakmarkanir sem hafa verið í gildi hingað hafa skilað góðum árangri að hans mati.

„Það eru of mörg smit miðað við stöðuna eins og hún er. Ellefu er há tala.  Við getum ekki sætt okkur við ellefu smit á dag í marga daga, það er bara ávísun á vandræði.“

En hefur tíu manna samkomubann ekki virkað?

Jú, það er búið að virka mjög vel. Síðan 12. nóvember er þetta búið að fara hratt niður, búið að ganga mjög vel en seinustu daga virðist fólk vera að gleyma sér. Það er vandamálið við þetta. Þegar okkur fer að ganga vel þá förum við að gleyma okkur.  Það má ekki vera þannig. Við erum búin að tala um þetta, það þarf að halda út, ná þessu almennilega niður svo má fara að huga að því að slaka á þessu,“ segir Thor.

Skýrist á næstu dögum hvort að fjórða bylgja sé hafin

Hann segir að afsláttardagar eins og nú eru auglýstir í aðdraganda jóla hafi sín áhrif.

„Ég held að fólk sé á ferðinni á milli búða að ná í einhvern lítinn afslátt sem skiptir engu í stóra samhenginu. Bara bíða með þetta aðeins, halda þetta út fram í miðjan desember,“ segir Thor.

Hann segir að næstu dagar séu mikilvægir um framhaldið. Á fimmtudaginn kemur ætti að skýrast hvernig framhaldið verður.

„Þá annað hvort verðum við komin í veg fyrir þetta eða þá að það verði komin bylgja af stað.“ segir Thor Aspelund.

Viðtal við Thor má sjá í heild sinni hér að ofan.

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV