Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Voldugu tré umplantað í íslenska skáldskaparjörð

Mynd: - / Dimma

Voldugu tré umplantað í íslenska skáldskaparjörð

25.11.2020 - 14:50

Höfundar

Þýðandinn Magnús Sigurðsson tekst á við meintan óþýðanleika Emily Dickinson af þrótti sem er innblásandi, segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi um nýútkomið safn ljóða hennar á íslensku, Berhöfða líf.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Það ber til tíðinda, umtalsverðra tíðinda, að út er komið á íslensku heilmikið ljóðasafn með ljóðum eftir bandarísku skáldkonuna Emily Dickinson, en hún telst til höfuðskálda bandarískrar ljóðlistar. Þýðandinn, Magnús Sigurðsson, sprettur reyndar ekki úr höfði Seifs eins og Pallas Aþena forðum, enda hefur hann getið sér gott orð sem ljóðskáld og ekki síst ljóðaþýðandi, Ezra Pound má nefna sem dæmi, en hann hefur einnig þýtt fleiri mikilvægar skáldkonur eins og Laviniu Greenlaw og Adelaide Crapsey. Síðast en ekki síst vann hann doktorsritgerð sína um Dickinson og þýðingar sínar á ljóðum hennar, svo sjaldan hefur nokkur, ef þá einhver, komið jafn vel undirbúinn leiks við þetta frumlega og torræða ljóðskáld, sem hún var og er. Ég naut þess heiðurs að fá að fylgjast aðeins með tilurð þessarar ritgerðar, svo það sé sagt, og veit því eitthvað um þá vinnu og elju sem að baki liggur, og verður það reyndar öllum lesendum ljóst við lesturinn á ljóðunum, og ekki síður afbragðsgóðum inngangi þýðanda, sem ég held að brjóti blað í þeirri bókmenntagrein, en ég hef lesið þá ófáa inngangana að slíkum verkum.

Emily Dickinson fæddist 1830 og lést 56 ára að aldri árið 1886. Aðeins örfá ljóð hennar birtust meðan hún var í lifanda lífi, þótt allmörg hafi, eins og Magnús bendir á, verið send til vina og ættingja í bréfum og fengu þannig einhverja útbreiðslu þótt minni háttar væri. Líf hennar var sérkennilegt og hefur stundum heillað suma ekki síður en ljóðin. Hún bjó alla tíð í föðurhúsum og sagt er að hún hafi varla yfirgefið herbergi sitt árum saman. Það sem meira er, hún skildi eftir sig mikið safn ljóða á blöðum sínum, ljóða sem hafa vakið undrun frá fyrstu tíð, stundum forundran, stundum aðdáun og á það síðarnefnda við síðustu öldina og rúmlega það. En hún skilaði nánast aldrei neinu ljóði til prentunar og áttu útgefendur hennar og ritstjórar síðar meir því stundum úr vöndu að ráða, einnig vegna þess að ljóðin voru svo sérstök, svo knöpp og einstök allt frá merkingu til ritaðrar framsetningar. Eins og Magnús rekur í innganginum snýr þetta að hrynjandi, úrfellingum orða, sérstæðu rími, skothendu og hálfrími, þankastrikum, auk þess sem hún notar hástafi mikið, til áhersluauka, hver veit?

En að bókinni og ljóðunum. Bókin sjálf skiptist í fimm hluta auk inngangs og er farið bæði yfir ferilinn í tíma í þremur köflum og einnig eru tveir stuttir kaflar helgaðir annars vegar hinum svokölluðu „Masterbréfum“, og hins vegar því sem þýðandi nefnir „Orðskviðir og hendingar,“ sem eru nokkurs konar afórismar á ljóðformi. Örðugt er að gera ljóðunum skil í útvarpi þar sem þau byggjast ekki aðeins á hefðbundnum tækjum ljóðlistarinnar eins og rími og hrynjandi, heldur virka þau líka þau sjónrænt, einmitt vegna þankastrikanna og hástafanna þótt ekki sé hægt að tala um myndljóð í þessu sambandi. Ljóðin sjálf eru heldur ekki myndrík, beinlínis, fremur heimspekileg, þau takast á við trúna, dauðann, lífsangistina, sem sagt lykilspurningar tilverunnar. Eitt lítið dæmi:

Að gráta er létt verk
og löðurmannlegt –

Stutt verk
að gefa upp vonir –

Og þó er Verka-
skiptingin slík –

er deyjum,
karlar og konur!

 

Þetta er einfalt og samt sem áður stórbrotið og kannski einkennir það ljóðlist Dickinson. Kannski er það einmitt það sem kallar á lesendur undanfarin 150 ár; mér finnst eins og þetta hefði getað verið birt í gær. Ljóðin eru líka uppfull af stríðri einlægni, ef svo má að orði komast og það er eitt af því sem mér finnst heppnast svo vel í þýðingunni hjá Magnúsi, hann endurvarpar henni fölskvalaust. Annað lítið og stórt dæmi:

Þetta er bréf mitt til Heimsins
sem aldrei skrifaði Mér –
Tíðindin ljósu sem Náttúran flutti –
svo blíð og Tignarleg
Tilskrif hennar fel ég
Höndum fjarri sýn –
Af ást á Henni – Kæru – Landar –
Hugsið blítt – til mín

 

Þetta er næstum eins og ljóð til framtíðarinnar, fróm bón og um leið ástarjátning til náttúrunnar og lífsins sem áfram lifir í ljóðinu og segja má að ósk hennar um að landarnir hugsi blítt til hennar hafi ræst miðað við þá stöðu sem hún hefur í bandarískri ljóðlist og heimsbókmenntunum sjálfum, því það eru ekki einungis landar hennar sem hafa tekið henni tveim höndum, heldur einnig þýðendur og lesendur á öðrum tungum, þrátt fyrir að hún hafi oft verið sögð óþýðanleg. Og nú keppist heimurinn við að skrifa henni eins og sjá má á bók þeirri sem hér er undir. Þar hefur kannski líka ræst það sem hún sagði um mátt orðsins í öðru ljóði:

Sagt
er orðið dautt,
segja sumir.
Ég segi það
megi sín
mest á þeim degi.

 

Orðskviðirnir svonefndu eru einnig heillandi lesning, knöpp orðspjót sem hitta oft í mark:

Ekkert er fyrst eða síðast í Eilífðinni –
Þar er Miðjan, endalaus –

 

Eða:

Fái Dauðinn heimboð,
gerist hann heimagangur.

 

Eða:

Kostur hins Versta þetta –
aldrei gerist það aftur –

 

Og loks:

Þökk er bljúgur auður
þeirra sem ekkert eiga.

 

Þessi örfáu dæmi hér að ofan sýna hversu orðsnjöll skáldkonan er og um leið hversu orðhagur þýðandinn er, hversu djúptækur skáldskapurinn er í uppruna sínum og þýðingu. Og samt hefur Emily Dickinson verið talin óþýðanlegt skáld eins og Magnús rekur vendilega í innganginum með fjölda tilvitnana, ekki síst í þýðendur sem þýddu hana samt, unaðslegt dæmi um þversögn þýðinga. Reyndar er þetta algengt stílbragð þýðenda erfiðra verka, að lýsa yfir óþýðanleika þess sem þeir eða þær þó þýddu, hugsanlega til að bægja frá sér fyrir fram baunateljandi gagnrýni.

Allt öðru máli gegnir um nálgun Magnúsar á þetta, hann tekst á við óþýðanleikann af þrótti sem er innblásandi, hann ræðst á klisjurnar um svik og rýrnun í þýðingu og lætur verkin tala eins og hann segir, „í fleiri en einni merkingu þess orðs“. Hann heldur áfram og byrjar á því að vitna í skáldkonuna sjálfa: „Ég er úti með luktir, að leita að mér sjálfri“ segir hún og Magnús bætir við:

„Við getum látið bjarma þessara lukta lýsa okkur leið, leitað okkar sjálfra í merkingarveröld Emily Dickinson. Víst er að lesendur hafa frá fyrstu tíð sagt að í leiðsögn ljóðanna búi þýðing þeirra. Meðal áskorana við annars konar þýðingu þessa skáldskapar er sá undarlegi samsláttur  sem gjarnan verður þegar saman fer hversdagslegt mál og sú ísmeygilega dirfska sem Dickinson byggir inn í ljóðagerð sína.“

 

Hér má hugsanlega sjá kjarnann í nálgun þýðandans að tungumálinu, sú skynjun á ljóðunum sem hann er að skapa á íslensku og byggir inn í sína ljóðagerð. Hann talar líka um aðferðafræði:

„Ég hef hins vegar ekki fylgt neinni fastri, óbreytanlegri aðferð við þýðingarnar sem hér birtast. Ekki fremur en vinnulag frumhöfundarins tel ég að aðferð þýðandans þurfi að vera kerfisbundin eða samræmd. Og raunar tel ég efamál að aðferðin sem slík sé til. Þýðingar geta fylgt stafkrókum frumtextans í þaula eina stundina og andblæ hans þá næstu. En þótt aðferðin fyrirfinnist varla tel ég að lausnina megi finna – og raunar fleiri en eina.“

 

Víst er að þýðandinn hefur leitað lausnanna af lifandi krafti skáldskapar og hann fer yfir hugmyndir um „skáldaleyfi“ þýðandans:

„Af slíkum „skáldaleyfum“ leiðir þó ekki að þýðandi vinni starf sitt af yfirgangi eða sjálfumgleði. Öðru nær. Með því móti opnast honum nýjar leiðir til að sinna störfum sínum af þeirri ástríðu, heiðarleika og hugviti sem einkennir góðar þýðingar. Áhersla á nýsköpun útilokar ekki trúmennsku.“

 

Vel mælt af hálfu þýðanda sem veit hvað og hvernig á að þýða, líka hið óþýðanlega, og með verki sínu hefur hann umplantað voldugu tré í íslenska skáldskaparjörð og um leið gefið ljóðum Emily Dickinson það framhaldslíf sem Walter Benjamin taldi þýðingar gefa skáldskapnum, hvað sem óþýðanleika hans liði.