Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Um tímann og vatnið - Andri Snær Magnason

Mynd: Samsett / Samsett

Um tímann og vatnið - Andri Snær Magnason

25.11.2020 - 16:24

Höfundar

„Áskorunin var að skrifa um málefni sem eru í rauninni stærri en tungumálið. Þú getur ekki bara sagt að þetta sé alvarlegt í tólfta veldi,“ segir Andri Snær Magnason rithöfundur um bókina sína, Um tímann og vatnið. Í henni er Andri í leit að áhrifaríkustu aðferðini til að fjalla um loftslagsbreytingar. Þar dregur hann persónulega þræði inn í frásögnina og veltir fyrir sér vísindunum, kynslóðatengslum, tímanum og stærstu orðum tungumálsins.

Frásögn Andra Snæs í Um tímann og vatnið er bæði persónuleg og vísindaleg í senn. Þar fléttar hann sér leið að loftslagsvísindunum með ævafornum goðsögnum um heilagar kýr, sögum af forfeðrum og ættingjum og viðtölum við Dalai Lama. Á næstu hundrað árum verða grundvallarbreytingar á eðli vatns á jörðinni. Jöklar munu bráðna, yfirborð hafsins rísa og sýrustig þess breytast meira en sést hefur í 50 milljón ár. Breytingarnar snerta allt líf á jörðinni, alla sem við þekkjum og alla sem við elskum. Þær eru flóknari en flest það sem hugurinn er vanur að fást við, stærri en öll fyrri reynsla okkar, stærri en tungumálið. Andri segir að lykillinn sé að segja persónulegar sögur.

„Ein leiðin er með því að segja „amma“. Þá mýkist hjartað og varnirnar falla og þú getur hent inn „súrnun sjávar“ svona eins og í Sálinni hans Jóns míns þegar Gullna hliðið opnast í örskot. En síðan þarf að hvíla fólk líka. Það er ekki hægt að dúndra niður vísindalegum upplýsingum.“ Tæknilegu atriðin og grundvallarupplýsingar um loftslagsbreytingarnar liggja fyrir og Andri segir að á þessum tímapunkti þarf ekki að endurtaka þær. Mikilvægara er að opna hjörtu fólks og koma því í skilning um að stóru orðin í tengslum við breytingar á loftslagi jarðar eru ofar skilningi okkar allra en nái yfir þau fyrirbæri sem koma til með að móta og breyta framtíð okkar. 

„Hvernig á ég að segja þetta? Að ein manneskja geti fundið stærri mun á hafinu heldur en ekki allir forfeður alveg niður í Homo erectus heldur tíföld sú tímalína. Tífalt lengri tíma en þróun mannsins. Venjulega eiga breytingar á sýrustigi hafsins að vera viðfangsefni vísindamanna með hárfínustu mælitæki, sem geta skynjað 0,00001 á meðalbreytingu á hafinu. Maður á ekki að geta fundið bragðmun á hafinu eins og í einhverju Pepsi-testi.“

Væri okkur sama ef loftsteinn stefndi á jörðina?

Andri Snær segir það vera viðfangsefni margra rithöfunda í dag að svara því hvers vegna maðurinn sitji aðgerðarlítill frammi fyrir stærstu breytingum á jörðinni á mannsögulegum tíma. „Væri okkur sama ef okkur væri sagt að loftsteinn stefndi á jörðina árið 2100? Eða myndum við ekki reyna að setja alla okkar innviði í að sprengja þennan loftstein eða sveigja hann af braut? Leggja niður þessa hernaðarmaskínu í bili og koma henni af sporbaug. Við myndum örugglega gera það. En breytingar sem gerast hægt og þar sem við erum loftsteinninn, þar sem eru hagsmunahópar sem hafa hag að því að loftsteinninn lendi. Við erum þar núna.“

Það virðist nútímamanninum erfitt að hugsa til langs tíma en margar bækur fjalli um það hvernig við getum virkjað langtímahugsun. „Hvernig áttu að hugsa eins og sá sem byggir dómkirkju á miðöldum og er búinn að skipuleggja bygginguna 300 ár fram í tímann. Eftir 300 ár ætlum við að hefjast handa við norðurálmuna. Hvernig gat fólk hugsað á svona skala?“

Veiran góð myndlíking

Mannkyn lifir nú heimsfaraldur sem hefur markað djúp spor bæði til lengri og skemmri tíma. Viðbrögð við honum sýna að menn eru færir um að taka í neyðarhemilinn ef aðstæðurnar og hagsmunirnir krefjast þess. „Ef við værum vísindalega þenkjandi verur þá hefðum við gert þetta árið 1990 þegar leit út að það væru svona 50% líkur á að þessi staða væri að koma upp. Og jafnvel fyrr [...] Heimsfaraldurinn er áhugaverð metafóra því kynslóðin sem hóf loftslagsverkföllin og krafðist þess að það væri tekið í neyðarhemilinn upplifir síðan að það er tekið í neyðarhemilinn.“

Kórónuveiran kemur til með að verða aðeins tímabil í augum fullorðinna einstaklinga en í augum barna og ungmenna er þetta tími sem mótar líf þeirra. „Þau munu sjá að berjast gegn loftslagsbreytingum fjallar um sameiginlegar aðgerðir en miklu meira um að gera hluti en að gera ekki hluti. Kórónuveiran snýst um að gera ekki hluti; ekki ferðast, ekki fljúga, bíða heima, vera heima, vera inni, vera á Zoom og gera ekki neitt. Fara ekki út að borða, elda ekki fyrir aðra, halda ekki partí og bara lifa lágmarkslífi á meðan baráttan við loftslagsbreytingar (sem menn hafa talað um að krefjist kannski 3-5% af þjóðarframleiðslu, álíka og er sett í stríðsrekstur í heiminum) það fellst í að gera hluti. Það er einhver að vinna við þetta allt saman, búa til þessar vindmyllur og sólarsellur, endurskipuleggja borgir og samgöngukerfin.“

Viðtalið við Andra Snæ í heild sinni má heyra í spilaranum hér að ofan. Viðmælendur í Bók vikunnar á sunnudag og ræða Um tímann og vatnið verða Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, prófessor í jöklafræði við Háskóla Íslands og Bragi Páll Sigurðarson, rithöfundur.