Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þarf skýrari aðgerðir og aukna fjárfestingu

25.11.2020 - 10:49
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna, segir að aðgerðirnar sem ríkisstjórnin kynnti í síðustu viku séu ekki nægilega skýrar og vel afmarkaðar. Hún segir að auka þurfi fjárfestingu ef stefnt er að því að vaxa út úr kreppunni. 

„Þá er ég kannski ekki að tala um fjárfestingu í húsnæði eða fasteignum en miklu frekar fjárfestingum í atvinnulífi; í rannsóknum, nýsköpun og öllu því sem við þurfum að setja fleiri stoðir undir til þess að gera atvinnulífið hér á landi fjölbreyttara. Það gengur ekki að við sitjum í vetur og bíðum eftir ferðamönnunum. Það er mjög vond stefna,“ segir Þórunn. Rætt var við hana á Morgunvaktinni á Rás 1 í dag.

Þórunn segir að það sé nauðsynlegt að skapa aðstæður fyrir ný störf á fleiri sviðum en áður. Einnig þurfi að fjárfesta í opinberri þjónustu. Nú ætti að vera hægt að viðurkenna að opinbert sé grundvöllur fyrir velferð og atvinnulíf hérlendis, segir Þórunn. „Það hefur aldrei verið eins augljóst og í lok þessa árs. Við vitum að þar höfum við sparað okkur til tjóns, í rauninni.“

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV

Þórunn segir að kreppan sé miklu dýpri en vonast var eftir og langvinnari. „Atvinnuleysi er ennþá vaxandi. Það er ellefu prósent og mun væntanlega vaxa í vetur. Það sem verra er að það eru mörg þúsund manns lent í langtímaatvinnuleysi.“

Í lok október höfðu þrjú þúsund og sex hundrað verið án atvinnu í eitt ár eða lengur, rúmlega tvö þúsund fleiri en ári áður. „Þetta veit ekki á gott. Það þarf ekki að lesa mikið um afleiðingar atvinnuleysis til að gera sér grein fyrir því að það hefur gríðarlega erfið félagsleg og efnahagsleg áhrif á fólkið sem missir vinnuna, ekki bara það heldur fólkið þeirra og börnin þeirra.“

Það er jákvætt að tekjutenging atvinnuleysisbóta var framlengd segir Þórunn en bendir á að fólk sé að detta út af 30 mánaða rétti til atvinnuleysisbóta. Fólki í þeirri stöðu eigi eftir að fjölga. „Og þá erum við að senda fólk þráðbeint í fátækt, því að hvernig ætlarðu að hafa framfærslu ef þú ert ekki með atvinnuleysistryggingar. Þá þarftu að leita til sveitarfélags, hjálparstofnana eða annarra.“