Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Það þurfti hörkutól í þetta starf“

Mynd:  / 

„Það þurfti hörkutól í þetta starf“

25.11.2020 - 12:05

Höfundar

Kristín Svava Tómasdóttir ljóðskáld segir að þó fólk sé gjarnan þakklát kvennastéttum í orði þá fái þær oft ekki að uppskera í veraldlegum gæðum. Hún sendi nýverið frá sér sagnfræðilega ljóðabók þar sem hún hampar hetjudáðum ljósmæðra fyrri tíma.

Í ljóðabókinni Hetjusögur yrkir Kristín Svava Tómasdóttir sagnfræðingur og ljóðskáld upp úr ritinu Íslenskar Ljósmæður I-III sem séra Sveinn Víkingur Grímsson bjó til prentunar og kom út á árunum 1962-64. Ritið hefur verið í miklu uppáhaldi hjá höfundi síðan hún las það fyrst en það geymir æviþætti og endurminningar ljósmæðranna. „Þetta eru algjörlega magnaðar sögur sem ég mæli með,“ segir Kristín í samtali við Morgunkaffið á Rás 2. Hugmyndin að bókinni kviknaði fyrir um tveimur árum. „Þá var ég farin að hugsa um sögurnar sjálfar og frásagnarstef í þeim og langaði að kanna það með ljóðlistinni,“ segir hún.

Starf ljósmæðra krefst enn mikils erfiðis og gerði það ekki síður á þessum tíma þegar konurnar þurftu að þeysast landshluta á milli í öllum veðrum, gjarnan til að koma til aðstoðar. „Það þurfti töluverð hörkutól í þetta starf,“ segir Kristín.

Konur taka léttasóttina að næturlagi

Flestur voru ljósmæðurnar í bókunum starfandi á landsbyggðinni á seinni hluta nítjándu aldar eða fyrri hluta þeirrar tuttugustu. Aðbúnaðurinn var annar en í dag, fátæktin gjarnan mikil og samgöngur erfiðar. Þær létu það ekki stoppa sig. „Það var þeirra hlutverk að svara kallinu þegar það kom og það segir í einu ljóðinu, sem er tekið upp úr einum þættinum, að það er aldrei konum gjarnara að taka léttasóttina en að næturlagi.“

Þær þurftu því að æða af stað að nóttu sem degi, hvernig sem viðraði og lýsingarnar af þeim ferðalögum eru áhrifamiklar í bókunum. „Og ég geri mikinn mat úr þeim í minni bók,“ segir Kristín.

Skilar sér ekki endilega í veraldlegum gæðum

Það er sem fyrr segir karl sem tekur saman sögurnar á sínum tíma. Ætli þessi kvennastétt hafi notið sannmælis fyrir sínar hetjudáðir?

„Það er kannski áhugaverð og mótsagnakennd staða eins og hún er enn þann dag í dag,“ viðurkennir Kristín. Hún bendir þó á að kvennastéttir á borð við ljósmæður og kennara njóti gjarnan mikils þakklætis í orði. „En það skilar sér ekki endilega í veraldlegum gæðum.“

Hér eru sögur af hetjum

Kristín hefur áður sent frá sér þrjár ljóðabækur og fræðibókina Stund klámsins. Það þekkja þeir sem lesið hafa ljóð hennar að tónninn er gjarnan íronískur og það er mikill húmor í textunum. Tónninn í Hetjusögum segir hún þó eðli málsins samkvæmt vera aðeins annan. „Það er ekkert mikið um beina brandara í þessum sögum þó þær séu pínu fyndnar stundum,“ segir hún. „Það er kannski meiri hlýja í henni en það er líka hluti af verkefninu.“

Hún tók ákvörðun um að taka afgerandi afstöðu eins og titill bókarinnar gefur til kynna. „Þetta er að hluta bara hrein og bein löngun til að hampa þessum konum og lýsa því yfir afdráttarlaust að hér séu sögur af hetjum.“

Rætt var við Kristínu Svövu Tómasdóttur í Morgunkaffinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

And-karllægni, kvenhetjur og róttæk góðvild

Bókmenntir

Hampar ljósmæðrum í óvenjulegri ljóðabók

Menningarefni

Miðlar, skáld, dulúð og drykkjumenn í Farsóttarhúsinu