Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Störfin ómarkviss á kjörtímabilinu að mati varaformanns

Mynd með færslu
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks. Mynd: althingi.is - skjáskot
Varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar segir störf nefndarinnar hafa verið ómarkviss á kjörtímabilinu vegna tíðra mannabreytinga þar. Brynjar Níelsson hefur mætt á fjóra af 16 nefndarfundum, sem hann segir tilgangslausa og vill hætta þar störfum. Formaður nefndarinnar segir Brynjar lítið geta sagt um störfin þar, vegna þess að hann mætir aldrei á fundina.

Stjórnarandstaða hentar illa fyrir ríkisstjórnarsamstarfið

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var sett á laggirnar eftir hrun til að auka eftirlit og aðhald með störfum Alþingis. Nefndarformennska er í höndum stjórnarandstöðu, sem Brynjar Níelsson Sjálfstæðisflokki segir ekki gott fyrir ríkisstjórnarsamstarfið.  Hann hefur látið skoðun sína í ljós á hinum ýmsu stöðum undanfarið og sagt að störf nefndarinnar einkennist af pólitískri sýndarmennsku og tímasóun, síðast í Kastljósi í gærkvöld.  

„Ég hef aðeins fett fingur út í það, yfir stjórn þessara nefnda, sem stjórnarandstaðan hefur verið með. Mér finnst hún ekki farsæl og ekki góð. Og hefur skaðað okkur og skaðað stjórnarsamstarfið,” sagði Brynjar.  

Þá finnst honum núverandi nefndarformann, Jón Þór Ólafsson Pírata, nota nefndina til að koma höggi á pólitíska andstæðinga og að nefndarstörfin væru leikrit sem skili engu. Brynjar hefur óskað eftir því við Sjálfstæðisflokkinn að hætta í nefndinni. 

„Þetta er spurning, ætlarðu að taka þátt í þessum leikþætti og þessari sýndarmennsku? Þau geta auðvitað bara verið í þessu og mega vera það,” sagði Brynjar. „Þetta fólk má alveg leika sér eins og það vill mín vegna.” 

Hefur mætt á fjóra fundi af 16

Nefndarfundurinn í morgun var sá sextándi á þessu þingi, og af þeim hefur Brynjar mætt á fjóra. Jón Þór segir Brynjar þar af leiðandi vita lítið sem ekkert um störfin þar og undirstrikar að nefndin hafi fengið til sín 23 mál og afgreitt fimm. 

Brynjar hefur gagnrýnt ýmiss mál á borði nefndarinnar, eins og sóttvarnaraðgerðir og hæfi sjávarútvegsráðherra. Kol­beinn Óttars­son Proppé, nefndarmaður Vinstri grænna, sagði á Facebook í gær eftir Kastljós, þar sem Brynjar fór mikinn um gagnleysi sóttvarnaraðgerða í landinu, að það væri ekki nóg með að Brynjar hafi ekki mætt á fundina, heldur sé engu líkara en hann hafi verið sofandi síðustu mánuði og kasti fram rökleysum í sífellu.

Ómarkviss vinna og mál oft illa ígrunduð

Líneik Anna Sævarsdóttir Framsóknarflokki, er fyrsti varaformaður nefndarinnar. Hún segir tíðar mannabreytingar þar hafa haft áhrif á störfin, en Jón Þór er þriðji formaðurinn á kjörtímabilinu. 

„Starf nefndarinnar hefur að mörgu leiti verið ómarkvisst á þessu kjörtímabili, meðal annars vegna tíðra mannabreytinga í nefndinni. Þá þarf að skipta um þá sem halda utan um mál og fleira. Það hefur haft áhrif. Síðan eru áherslur fólks auðvitað mismunandi,” segir Líneik og bætir við að stundum hafi verið farið í illa afmörkuð mál á vafasömum forsendum. Hún vill þó ekki tiltaka hvaða mál það séu að hennar mati. 

„Ég ætla ekki að nefna nein tiltekin mál, það er bara eitthvað sem við ræðum í nefndinni. Það þarf að afmarka öll mál vel og vísa í heimildir þegar farið er í formlega skoðun.”