Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Steinunn HF lenti í ofsaveðri á leið af fiskimiðum

25.11.2020 - 23:09
Mynd með færslu
 Mynd: LUSA - EPA
Áhöfn línubátsins Steinunnar lenti í slæmu veðri á siglingu af miðunum til lands í dag. Til stóð að sigla til Hafnarfjarðar en þegar komið var að Garðskaga reyndist veðurhamurinn of mikill og því ákveðið að halda til Keflavíkur þess í stað. Eftir erfiða siglingu náði Steinunn landi með níu tonn af fiski.

Á vef Aflafrétta segir að suðaustan hviður hafi slegið í meira en 26 til 30 metra á sekúndu og mikil öldhæð. Áhöfnin öll kom sér fyrir í brú bátsins, tveir á bakborða og tveir á stjórnborða. Allir höfðu flotgalla innan seilingar ef illa færi. 

Brot gengu yfir Steinunni á landleiðinni en öldubrjótur á stefni hennar kom í veg fyrir að öldurnar skyllu á brúnni. Þó brotnaði rúða og sjór tók að streyma inn og eins flæddi sjór í lúkarinn um lúgu. 

Meðalhraði bátsins frá Garðskaga til hafnar í Keflavík var þrjár til fjórar sjómílur en siglingin tók um þrjár og hálfa klukkustund. Aflafréttir hafa eftir einum skipverja Steinunnar að þeir hafi um tíma verið óvissir um að ná landi.