Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Skilur vel gremju foreldra og nemenda

25.11.2020 - 21:17
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Formaður Skólameistarafélags Íslands segist vel skilja gremju framhaldskólanema og áhyggjur foreldra þeirra vegna fjarkennslu. Hann bindur vonir við að sóttvarnareglur verði rýmkaðar nú um mánaðamótin. Foreldrar geti ekki beint gremju sinni að skólastjórnendum. Aðrir setji reglurnar sem þeim sé gert að vinna eftir.

 

Rúmlega 100 foreldrar nemenda í Menntaskólanum við Sund sendu áskorun á stjórnendur skólans fyrr í vikunni um að opna skólann að nýju fyrir nemendum fram að jólaleyfi. Þeir segja sömu reglur eiga að gilda um grunn- og framhaldsskólanemendur.

Kristinn Þorsteinsson er formaður Skólameistarafélags Íslands. Hann segir það mikinn misskilning ef menn halda að skólar vilji ekki fá nemendur inn í skólana.

„Flestir skólar hér eru áfangaskólar og þeir blanda nemendum svo mikið saman að við getum aldrei uppfyllt regluna um 25 manna sóttvarnarhólf.“

Hann segir foreldra ekki geta beint umkvörtunum til skólastjórnenda. Ákvarðanirnar séu teknar annars staðar.

„Ég skil það alveg. Við erum nærtækasti aðilinn til að tala við og þeim finnst sumum, og hafa kannski misskilið þær breytingar sem hafa orðið á reglum, og telja að við gætum gert betur og kannski getum við gert betur. Við erum alltaf að skoða með gagnrýnu hugarfari það sem við gerum. Þannig að ég skil alveg þá gagnrýni og þá gremju. En vissulega eru þessar reglur frá sóttvarnalækni sem ég er í sjálfu sér ekkert að gagnrýna en  þær eru ástæður þess að við getum ekki haft nemendur meira í staðnámi.“

Ástandið sé ekki eins slæmt og margir kynnu að halda.

„Við gerum náttúrulega okkar kannanir og þær svo sem líta ekkert skelfilega út. Vissulega ætla ég ekki að gera lítið úr vanlíðan nemenda  og þeim kvíða sem þau þurfa að lifa við þetta ástand eins og það er í dag. En námsárangur til að mynda er ekki svo slæmur og brottfall er lítið sem á sér svo sem margar skýringar. Skólasókn er ágæt því að flestir láta nemendur mæta þó það sé bara á rafrænan hátt þannig að við sjáum enga skelfingu en mikið ósköp held ég að þetta sé erfitt fyrir foreldra og nemendur og það eru örugglega margir sem hafa það ekki gott út af þessu og við vildum mjög svo gjarnan taka nemendur á hús.“

Skólastjórnendur hafa fundað reglulega með menntamálaráðuneytinu og vinna nú í sameiningu að meiri opnun.

„Þegar að upp er staðið þá er það sóttvarnarlæknir sem í  leggur línurnar og yfirvöld sem taka ákvarðanirnar en ekki við. Það er ekki eðlilegt að við séum að beita þrýstingi í því. Ég þykist vita að þeir kunni sitt fag og ég bara treysti því. Ég sæki á eins og ég get en svo sætti ég mig við þær niðurstöður sem koma.“

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV