Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skerpa ber og skýra skilyrði viðbótar- og stuðningslána

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í nýrri skýrslu eftirlitsnefndar með lánum með ríkisábyrgð segir að talsverður munur sé milli skilyrða og skilmála hinna þriggja lánaflokka viðbótar- og stuðningslána sem sé ekki alltaf augljós. Skilyrði í lögum, reglugerðum og samningum séu ekki eins skýr og æskilegt væri að mati nefndarinnar.

Mat nefndarinnar er það dragi úr gagnsæi lánanna gagnvart lántakendum og í sumum tilfellum lánveitendum. Lántakendur geri sér hvorki grein fyrir hvort þeir uppfylli skilyrði til lántöku né hverjir skilmálar hennar kunni að vera.

Fram komi í svari lánveitenda til nefndarinnar að umsóknir um lánin séu meðhöndlaðar með ólíkum hætti enda sé skilningur þeirra á skilyrðum og skilmálum ekki samhljóða.

Eftirlitsnefndin telur líkur á að skammur láns- og endurgreiðslutími viðbótar- og stuðningslána dragi úr því að lántakar uppfylli það skilyrði að verða rekstrarhæfir þegar kórónuveirufaraldurinn er genginn yfir.

Lánstíminn er 30 mánuðir fyrir lán undir 10 milljónir en 48 mánuðir fyrir hærri lán. Nefndin bendir á þann möguleika lengja lánstíma lánanna og rýmka endurgreiðslutíma þeirra, að ríkisábyrgð vegna þeirra verði framlengd inn í árið 2021 og að lögum verði breytt til til að tryggja samræmi í veitingum lánanna.

Jafnframt segir að í ljósi reynslunnar verði að auka jafnræði lántaka með því að skýra þau lántökuskilyrði sem uppfylla þurfi auk skerpingar ákvæða um vexti og tryggingar þeirra.

„Með lagabreytingu, eftir atvikum að undangengnu eða samhliða samkomulagi ríkis og lánveitenda sem væru lögunum til fyllingar, þar sem skerpt væri á samhengi úrræðanna, gagnsæi þeirra, ríkisábyrgð á vaxtakröfum samræmd og hámarkslánsfjárhæðum og samspili þeirra við lánstíma og endurgreiðsluferli lána gefinn sérstakur gaumur.“

Eins stingur nefndin upp á að lánveitandi geti ekki farið fram á yfirlýsingu frá umsækjendum um að þeir geti staðið í skilum í óvissri framtíð. Nefndin metur að taka þurfi til skoðunar hvort þáttur vanskilaskrár og lánshæfismats Creditinfo hafi eðlilegt vægi þegar rekstrarhæfi umsækjanda er metið. 

„Blint traust á vanskilaskrá og lánshæfismat Creditinfo við mat á rekstrarhæfi er að mati nefndarinnar ekki augljós kostur við slíkt mat.“ Nefndin álítur einnig mikilvægt að skýrt sé hvernig bregðast beri við komi til vanskila á viðbótar- eða stuðningslánum.

Fæstir skilji til hlítar þær innri og ytri reglur sem gildi um samspil vanskilaskrárinnar og lánshæfismats gildi. „Lánshæfismat Creditinfo er svo aftur í meginatriðum byggt á vanskilaskránni. Ef rangar færslur vegna umsækjanda, til dæmis vegna þess að þar voru skráðar umdeildar kröfur, hafa farið á vanskilaskrá hafa þær aftur bein áhrif á lánshæfismatið.“

Skýrsla nefndarinnar nú er sú fyrsta sem henni er ætlað að skila fjármála- og efnahagsráðherra á sex mánaða fresti á skipunartíma sínum. Nefndina skipa Einar Páll Tamimi, formaður sem var skipaður án tilnefningar, Ásta Dís Óladóttir, skipuð eftir tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins og Kristrún Heimisdóttir, skipuð eftir tilnefningu forsætisráðherra.