Mikið tekjufall hjá Menningarhúsinu Hofi

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV

Mikið tekjufall hjá Menningarhúsinu Hofi

25.11.2020 - 14:55

Höfundar

Allt að sjötíu prósent af viðburðum í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri hafa fallið niður vegna faraldursins. Öllum stærstu jólatónleikum hefur verið aflýst, en minni tónleikar verða í desember sem jafnframt verður streymt á netinu.

Hof hefur orðið af miklum tekjum undanfarna mánuði en vegna faraldursins hafa fáir sem engir viðburður verið í húsinu þennan tíma. Áætlað er að tekjufallið í desember einum verði allt að sjö milljónir króna en allir stærstu jólatónleikar í Hofi falla niður.

Hafa misst 50-70 prósent af öllum viðburðum

„Í rauninni má segja að við séum búin að missa 50-70 prósent af öllum viðburðum og tekjufallið eftir því,“ sagði Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar, í viðtali á Morgunvaktinni á Rás1.

Nokkrir smærri tónleikar - streymt á netinu

Stærsti mánuður ársins er framundan enda jafnan fjöldi viðburða og tónleika í desember. „Stærstu tónleikarnir falla niður, en við fengum styrk frá Akureyrarbæ til þess að halda minni tónleika og þeir verða á fimmtudögum í desember,“ segir Þuríður. Þarna segir hún að komi fram tónlistarfílk sem hafi ekki unnið saman fyrr. Leyfilegur fjöldi áhorfenda verði á tónleikunum og þeim verði einnig streymt á netinu.

Allt að sjö milljóna króna tekjufall í desember.

Og hún segir að Hof missi af miklum tekjum í desember. „Það er í kringum 5-7 milljónir, eitthvað þess háttar. Og það er náttúrulega rosalegt áfall og mjög leiðinlegt fyrir tónlistarfólkið, listamennina og ekki síst áhorfendur, að missa af þessu. Og við vonum bara að við getum glatt fólk með öðrum hætti."

Tengdar fréttir

Tónlist

7 stórtónleikar sem var aflýst eða frestað vegna COVID

Menningarefni

Tónleikarnir fara fram snemma í haust

Tónlist

Vilja ólmir taka upp kvikmyndatónlist á Akureyri