Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Langar raðir við búðir á tilboðsdögum

25.11.2020 - 16:30
Breki Karlsson
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Oft er hægt að gera góð kaup á tilboðsdögum í búðum. Tilgangurinn með tilboðsdögum er að fá fólk til að kaupa meira. En tilboðin eru ekki alltaf hagstæð. Því er betra að vanda sig við innkaupin.

Svartur föstudagur og ýmis tilboð í búðum

Margar búðir eru með tilboðsdaga í þessari viku og næstu viku. Tilboðsdagarnir kallast Svartur föstudagur. Fyrirmyndin að þeim er Black Friday sem er útsöludagur á síðasta föstudegi í nóvember víða í Bandaríkjunum.

Langar raðir voru fyrir utan margar búðir á höfuðborgarsvæðinu í gær. Fólk ætlaði að nýta sér tilboðin og kaupa jólagjafir og fleira. Aðeins tíu manns mega vera inni í hverju hólfi í búðum og þess vegna voru raðirnar mjög langar.

Hvetur fólk til að kaupa ekki óþarfa

Breki Karlsson er formaður Neytendasamtakanna. Hann segir að fólk þurfi að gæta að ýmsu þegar það skoðar tilboð búðanna. Tilgangurinn með tilboðsdögum sé að fá fólk til að kaupa meira. Þannig sé reynt að auka verslun fyrir jólin.

Breki bendir á að það sé nauðsynlegt að hugsa um umhverfið áður en það kaupir jólagjafir. „Það er ekkert sorglegra en að kaupa einhvern hlut sem sendur er hingað yfir hálfan hnöttinn einungis til að fá stað við hliðina á fótanuddtækinu eða litla ljósálfinum ef einhver man eftir honum,“ segir Breki. Þess vegna ætti fólk ekki að gefa óþarfa hluti í jólagjafir.

Ekki öll tilboð jafngóð og sagt er

Því miður eru tilboð ekki alltaf vera eins góð og sagt er í auglýsingum. Breki segir að Neytendasamtökin fái alltaf ábendingar um það í kringum svona tilboðsdaga.

„Það eru, því miður, einhver dæmi um að verslanir hafi hækkað verð einungis til að lækka þau á tilboðsdögum. Og það er ekki heimilt.“

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir