Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Endurheimtu mótorhjól undan stiga eftir 50 ára bið

25.11.2020 - 19:43
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Mótorhjól sem steypt var inni undir stiga á Akureyri á áttunda áratugnum kom í ljós á ný í dag. Hjólið, sem dúsað hefur undir stiganum í tæp fimmtíu ár, var það fyrsta í eigu Heiðars Jóhannssonar, en hann lést í mótorhjólaslysi árið 2006. Það fær nú sinn stað á Mótorhjólasafni Íslands.

Hjólið verið í kjallaranum í um 50 ár

Það voru ættingjar og vinir Heiðars sem stóðu að því að koma hjólinu út úr húsinu við Norðurgötu á Akureyri í dag.  „Árið 1967 þá gaf hann vini sínum, Þórarinn heitir hann, Sigurbjörnsson, kallaður Tóti. Hann fékk þetta hjól, þá var hann 11 ára og Heiðar 13 ár,“ segir Tómas Ingi Jónsson, frændi Heiðars. 

„Í framhaldi af því flytur hann svo úr bænum. Þegar hann ætlaði svo að vitja um hjólið þá voru húseigendur, pabbi hans og fleiri búnir að steypa það hérna inni í þessum kjallara. Það er ekki vitað nákvæmlega hvenær það var en það er talið að það hafi verið í kringum svona 1971-2. Það er búið að vera þarna síðan,“ bætir Tómas við. 

Af hverju steypti hann þetta þarna inni?

„Ja, það veit enginn“

Húsbruni opnaði á að hjólið yrði sótt

Húsið sem geymt hefur hjólið í öll þessi ár brann á síðasta ári. Það var í framhaldinu rifið og við það opnaðist tækifæri til að endurheimta það.

„Þetta var náttúrulega hans draumur“

„Þetta fer inn á mótorhjólasafn sem stofnað er í minningu Heiðars, þetta ár náttúrlega hans fyrsta hjól og þar er salur sem er tileinkaður Heiðari og hans minningum með uppáhalds hjólunum hans og þetta verður náttúrlega eitt af þeim hjólum.“

Er ekki góð tilfinning að fyrsta hjólið sé loksins komið á safnið?

„Jú jú, ekki síst vegna þess að þetta var náttúrulega hans draumur líka. Þetta er svona pínu tilfinningalegt fyrir okkur sem stöndum að þessu safni að fá þetta fyrsta hjól: Hann vissi af þessu og ætlaði að gera þetta og við erum búin að framkvæma það núna og hér verður það í framtíðinni, þannig að það er komið heim.“

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Hjólið á Mótorhjólasafni Íslands