Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki hægt að segja til um hvort bótaskylda gefi fordæmi

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Krabbameinsfélagið fagnar því að tryggingafélag þeirra hafi viðurkennt bótaskyldu í máli konu sem fékk ranga greiningu vð skimun. Framkvæmdastjóri félagsins segir þó ekki hægt að segja til um hvort það gefi fordæmi í málum fleiri kvenna sem telja sig hafa fengið ranga greiningu hjá félaginu.  

Í gær var greint frá því að tryggingafélag Krabbameinsfélagsins hefði viðurkennt bótaskyldu í máli konu vegna rangrar greiningar í skimun við leghálskrabbameini. Konan fór í skimun við leghálskrabbameini árið 2018 en fyrr á þessu ári veiktist hún alvarlega af krabbameini. Þegar sýni hennar var endurskoðað kom í ljós að hún hafði fengið ranga niðurstöðu úr skimuninni vegna mistaka. 

„Það er myndi ég segja töluverður áfangi að þarna sé bara búið að ganga frá því að þarna sé bara búið að viðurkenna bótaskylduna. Við fögnum því að tryggingafélagið hafi viðurkennt þetta,“ segir Halla Þorvaldsdóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

„Örugglega mismikill fótur fyrir málunum“

Tryggingafélagið greiðir bæturnar sem nema tugum milljóna, að sögn lögmanns konunnar. Í kjölfar málsins voru krabbameinssýni sex þúsund kvenna endurskoðuð. Málum ellefu kvenna sem telja sig hafa fengið ranga greiningu hjá Krabbameinsfélaginu hefur verið vísað til Embættis landlæknis og í málum fjögurra þeirra hefur verið farið fram á skaðabætur. Halla segist ekki geta svarað því hvort niðurstaðan hafi áhrif á fleiri mál.

„Að mér vitanlega eru engin sambærileg mál í gangi. Og við auðvitað getum ekki fjallað um einstök mál. Þau eru mjög ólík og örugglega mjög mismikill fótur fyrir þeim,“ segir Halla Þorvaldsdóttir.