Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Byggja hjúkrunarheimili fyrir þrjá milljarða í Kópavogi

25.11.2020 - 15:52
Mynd með færslu
 Mynd: aðsend - Kópavogur
Samningur um byggingu 64 rýma hjúkrunarheimilis í Boðaþingi var samþykktur í Bæjarstjórn Kópavogs í gær. Miðað er við að framkvæmdir við heimilið hefjist í ársbyrjun 2022 og að það verði tekið í notkun snemma árs 2024.

Áætlaður kostnaður vegna byggingu hjúkrunarheimilisins eru rúmir þrír milljarðar og skiptist kostnaðurinn þannig að 85% greiðist úr ríkissjóði en 15% af Kópavogsbæ. Að auki leggur Kópavogsbær til lóð undir hjúkrunarheimilið.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, segir að verkefnið komi til með að að leysa úr brýnni þörf fjölda þeirra sem eru á biðlista eftir hjúkrunarrými.

„Við reistum þarna á sínum tímum þjónustumiðstöð fyrir þessi rými. Það er að segja þessi 44 sem þegar eru til staðar, auk nýrra rýma. Upphaflega áttu að vera 44 til viðbótar en það er sem sagt búið að fjölga um tuttugu til viðbótar við það. Þannig að við erum mjög ánægð með að þetta skuli vera að verða að veruleika,“ segir  hann. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV