Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Brýnt að lengja tímabil atvinnuleysisbóta

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Yfirmaður velferðarsviðs Reykjavíkurborgar vill að tímabil atvinnuleysisbóta verði lengt enda lækki fólk í tekjum þegar það missir bætur og fær í staðinn fjárhagsaðstoð. Á fjórða þúsund manns hafa verið án vinnu í ár eða lengur.

Tuttugu og fimm þúsund manns eru án atvinnu að hluta eða öllu leyti. Um áramótin hækka bæturnar verða grunnbætur þá 307 þúsund krónur. Bið eftir afgreiðslu umsókna um bætur hefur styst og er nú fjórar til sex vikur. Þetta kom fram í máli Unnar Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar, á upplýsingafundi almannavarna.

Formaður BHM benti á það í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun að á fjórða þúsund manns hafa verið án atvinnu í ár eða lengur. Þetta sé áhyggjuefni og hafi mikil áhrif á þann sem missir vinnuna og börn hans og fjölskyldu. Regína Ásvaldsdóttir, sviðstjóri Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, telur að lengja ætti tímabil atvinnuleysisbóta en núna missir fólk bætur eftir 30 mánaða atvinnuleysi. 

„Ég tel mjög mikilvægt að við horfum til þess að tímabilið sé lengt þegar þessar aðstæður hafa komið upp vegna þess að fjárhagsaðstoð, þó að hún sé hæst í Reykjavík, þá eru atvinnuleysisbætur hærri. Þannig að fólk sem hefur verið atvinnulaust og er að detta af bótum og fær hvergi vinnu, að þá er sveitarfélagið eini kosturinn. Þannig að ég tel mjög mikilvægt að lengja þetta tímabil,“ segir Regína.

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að hér sé bótatímabil lengst á Norðurlöndum.

„Ég held að þetta sé ekki alveg tímabær umræða en ég vil leggja áherslu á að það er mjög alvarlegt fyrir fólk sem er búið að vera atvinnulaust í tólf mánuði,“ segir Unnur. Hún hvetur fyrirtæki til að ráða inn fólk í átaksverkefnið Starf með styrk.