Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Breytingar á utanríkisstefnu þegar Biden tekur við

25.11.2020 - 18:15
Mynd: EPA-EFE / EPA
Búist er við að veruleg breyting verði á stefnu Bandaríkjanna í utanríkis- og öryggismálum þegar Joe Biden tekur við sem forseti 20. janúar. Biden hefur tilkynnt um val nokkurra lykilráðherra. Utanríkisráðherraefni hans, Antony Blinken, er alþjóðsinni, eindreginn stuðningsmaður Atlantshafsbandalagsins og segir að Bandaríkjamenn geti ekki leyst öll heimsins vandamál einir, þeir verði að vinna með bandamönnum sínum.

Nýr tónn frá fyrsta degi

Það verður nýr tónn í utanríkisstefnunni frá fyrsta degi eftir að Joe Biden tekur við sem forseti Bandaríkjanna, skrifar enska tímaritið The Economist. Val hans á þremur æðstu ráðgjöfum sínum sýni að hann vill marka brotthvarf frá glundroðanum í utanríkisstefnu Donalds Trumps. Biden kynnti í gær þau sem eiga að fara með forystu í utanríkis- og öryggismálum.

Fólk með reynslu

Antony Blinken verður utanríkisráðherra, John Kerry, sem var utanríkisráðherra í forsetatíð Baracks Obama, á að bera ábyrgð á loftslagsmálum og Jake Sullivan verður öryggismálaráðgjafi forsetans. Sullivan er sagður reynslumikill þó að hann sé langyngstur í þessum hópi. Þá hefur Biden útnefnt Lindu Thomas-Greenfield sem sendiherra gagnvart Sameinuðu þjóðunum. Yfirmaður leyniþjónustustofnana verður Avril Haines.

Biden kynnti væntanlega ráðherra í gær og sagði:

Þetta fólk er tákn þeirrra staðföstu skoðunar minnar að Bandaríkin séu sterkust þegar við vinnum með bandamönnum okkar. Biden lagði áherslu á að hann hefði valið fólk með mikla þekkingu og reynslu. Það er ekki hægt að takast á við nýjar áskoranir með gamaldags hugsunarhætti og óbreyttum aðferðum.

Öldungadeildin verður að samþykkja

Athygli vekur að Biden hefur ekki enn tilkynnt hvern hann vilji fá í starf varnarmálaráðherra. Að Sullivan öryggismálaráðgjafa og Kerry sem á að sjá um loftslagsmálefni undanskildum verður Öldungadeild Bandaríkjaþings að staðfesta skipan hinna. Repúblikanar hafa meirihluta í Öldungadeildinni svo ekki er víst að það verði auðsótt að fá deildina til að staðfesta skipan ráðherrana.

Óumdeildir verða staðfestir 

Friðjón R. Friðjónsson, framkvæmdastjóri, sem fylgist gjörla með stjórnmálum vestra telur að Öldungadeildin staðfesti skipan þeirra sem teljist óumdeildir. Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í deildinni, ætli sér hins vegar ekki að auðvelda Biden lífið. Biden hafi því forðast að velja fólk sem hann gæti lent í vandræðum með, margir hefðu talið Susan Rice líklegt utanríkisráðherraefni en hún hafi ekki verið útnefnd í neitt embætti. Repúblikanar hefðu án efa beitt sér hart gegn henni.

Alþjóðasinni sem vill samstarf við bandamenn

Antony Blinken, verðandi utanríkisráðherra, hefur víðtæka reynslu, hann hefur starfað fyrir Biden í utanríkismálum í á annan áratug og hefur verið aðstoðarutanríkisráðherra. Hann er af gyðingaættum, eftir skilnað foreldranna flutti Blinken til Frakklands er móðir hans giftst Samuel Pisar, þekktum lögfræðingi, sem lifði helförina af.

Uppvöxtur í Frakklandi mótaði Blinken

Uppvöxturinn í Frakklandi mótaði Blinken mjög, hann talar lýtalausa frönsku, hann er alþjóðsinni, Evrópuvinur og eindreginn stuðningsmaður Atlantshafsbandlagsins. Hann sagði er Biden kynnti hann sem utanríkisráðherraefni í gær að Bandaríkjamenn gætu ekki leyst öll heimsins vandamál einir, þeir yrðu að vinna með bandamönnum sínum.

Ekki lengur ,,America first"

Blinken sagði einnig að Bandaríkjamenn væru best til þess fallnir að fá þjóðir heims til að takast á við vandamálin sem þurfi að leysa. Þetta er allt önnur afstaða til umheimsins en ríkt hefur í stjórn Donalds Trumps með kjörorðin Bandaríkin fyrst, America first.

Verða aftur með í alþjóðasamvinnu

Friðjón R. Friðjónsson spáir að Bandaríkjamenn hverfi aftur til þeirra tíma þegar þeir tóku virkan þátt í alþjóðasamstarfi og verði með í Parísarsamkomulaginu um baráttu gegn loftslagsbreytingum. Þeir verði á ný hefðbundnir þátttakendur í alþjóðasamvinnu. 

Gagnast smáþjóðum eins og Íslendingum

Friðjón telur að það verði mjög gott fyrir smáríki eins og Ísland að aftur verði farið eftir lögum og reglum í alþjóðasamstarfi, Bandaríkin breyti frá ,,tweet-stefnu" í hefðbundnari utanríkisstefnu.