Fyrir fimmtíu árum lýstu starfsmenn í Arnarholti á Kjalarnesi illri meðferð sem heimilismenn þar sættu. Þeir hefðu á stundum verið látnir vera lengi í einangrun í litlum klefa, sellu sem svo var kölluð, þeim hefði verið refsað með því að þeir fengu ekki að borða og verið læstir úti í öllum veðrum, svo nokkuð sé nefnt. Vitnaleiðslurnar hafa verið birtar nýlega. Geðhjálp og Landssamtökin þroskahjálp hafa farið fram á að Alþingi láti gera rannsókn á aðbúnaði fatlaðs fólks og fólks með geðrænan vanda síðastliðin áttatíu ár. Arnarholt var opnað 1945 og þá kallað þurfamannahæli. Þar voru þegar leið á öldina menn með ýmiss konar vanheilindi - oftast geðræn.