Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ábendingum um þvinganir og frelsissviptingu fjölgar

Mynd: RÚV - Hreiðar Þór Björnsson / RÚV
Alvarlegum ábendingum til Geðhjálpar um þvinganir og frelsissviptingu hefur fjölgað að undanförnu. Starfsfólk á stofnunum er meðal þeirra sem benda á misbresti. Framkvæmdastjóri Geðhjálpar segir líklegt að einhver mál verði send til rannsóknar hjá embætti Landlæknis.

Fyrir rúmum tveimur vikum var greint frá lýsingum starfsfólks á vistheimilinu Arnarholti, á margvíslegri ómannúðlegri meðferð sem heimilisfólk þar varð fyrir á sínum tíma.

Eftir þá umfjöllun hafa fleiri leitað til Geðhjálpar, með ábendingar um misbresti í þjónustu og aðbúnaði fólks sem glímir við geðræn vandamál í nútímanum. Á einni viku hafa borist yfir tíu ábendingar, sem Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir að sé mun meira en venjulega. Sumar þeirra séu alvarlegar.

„Umboðsmaður Alþingis og OPCAT eftirlitið hafa bent á það skortir lagaheimildir fyrir ákveðnum hlutum sem verið er að gera inni á stofnunum þar sem fólk er lokað inni. Þannig að já, það eru frelsissviptingar og þvinganir sem fylgja því. Og Geðhjálp hefur verið skýrt í afstöðu sinni til þvingana og nauðungar, að við viljum ekki sjá slíkt,“ segir Grímur.

Hvers konar þvinganir eiga sér stað?

„Það eru meðal annars lyfjaþvinganir þar sem fólk er þvingað til þess að taka lyf, það eru þvinganir þar sem þú ert lokaður inni á herbergi eða meinað að vera úti.“

Ræða við löglært fólk

Grímur segir að það sé mat Geðhjálpar að slíkar þvinganir séu oft á mörkum hins löglega.

Hverjir eru það sem koma með ábendingarnar?

„Það eru bæði notendur, aðstandendur þeirra og líka starfsmenn.“

Geðhjálp og Landssamtökin Þroskahjálp áttu fund um málið á mánudag, en hjá Þroskahjálp hefur ábendingum einnig fjölgað. Grímur segir að til standi að ræða málið við forsvarsmenn Landspítalans. 

Nú fara svona mál til rannsóknar hjá embætti Landlæknis, eru einhver þessara mála þess eðlis að þurfa að fara í þann farveg?

„Við munum skoða það, við ætlum að fara yfir það með löglærðu fólki,“ segir Grímur. „Og jú það má gera ráð fyrir því að einhver af þessum málum fari til Landlæknis.“

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Hér má sjá lengri útgáfu af viðtalinu við Grím Atlason.