Víti frá syninum kom upp um krabbameinið

Mynd: Gísli Gunnar Oddgeirsson / Aðsend

Víti frá syninum kom upp um krabbameinið

24.11.2020 - 15:15

Höfundar

„Þarna hrundi bara lífið og tilveran. Á þessum tímapunkti. Ég réð bara ekki við meira. Þá áttaði ég mig á því að ég þurfti að leita mér aðstoðar," segir Gísli Gunnar Oddgeirsson, framkvæmdastjóri Íþróttafélagsins Magna á Grenivík. Hann hélt áfram á hnefanum í gegnum lífið eftir að hafa tekist á við þrjú alvarleg áföll.

Gísli Gunnar er Grenvíkingur í húð og hár og hefur búið á Grenivík alla tíð ef frá eru talin tvö ár þegar hann var við nám í Reykjavík og tvö ár sem hann bjó á Akureyri. 

Sjómennskan átti hug og hjarta Gísla Gunnars og hann stefndi alltaf á að verða sjómaður. Litlu munaði þó að hann færi aðra leið en á síðustu tók hann skyndiákvörðun um að gera sjómennsku að framtíðarstarfinu. Bróðir Gísla Gunnars var á matreiðslumaður og þar sem Gísli Gunnar hafði sjálfur gaman af eldamennsku ákvað hann að gerast matreiðslumaður líka. Hann fékk samning á veitingastaðnum Argentínu og flutti suður með eiginkonu sinni. Hann var tvístígandi yfir því hvort þetta væri rétta skrefið enda hafði hann alltaf verið á sjó á haustin og veturna á Grenivík. Hann ákvað að fara á Argentínu og heyra í þeim hljóðið. 

„Svo fór ég þaðan út og sagði við konuna, ég ætla að breyta þessu. Nú keyrum við í Stýrimannaskólann í Reykjavík og ég sæki um þar og athuga hvort ég kemst ekki bara í stýrimannanám. Ég gerði það og hætti við að fara í matreiðsluna og endaði í stýrimannaskólanum.” Gísli Gunnar hefur ekki séð eftir þessari skyndiákvörðun. „Sjómennskan er frábær. Hún hefur alltaf heillað mig,” sagði hann í Sunnudagssögum á Rás 2. 

Gísli Gunnar vann lengi með föður sínum á sjónum, en hann rak útgerð ásamt bróður sínum og mági. „Við vorum meira og minna saman í 20 ár á sjónum. Þetta var frábær tími að vera með honum og læra af honum. Ég mun áfram læra af honum.” Faðir hans lést fyrr á árinu. 

Afdrifarík vítaspyrna

Fyrsta stóra áfallið í lífi Gísli Gunnars reið yfir 2011, á sjómannadaginn. Hann var þá að spila fótbolta á Grenivík og var í markinu þar sem sonur hans var að taka víti. „Ég var búinn að verja eins og brjálæðingur þennan sjómannadag. Svo þrumar hann á markið og ég lendi einhvern veginn ofan á boltanum, varði nú samt vítið. Þá gerist eitthvað, ég fer að finna svona ofboðslega til.”  Hann harkaði af sér til að komast í sjómannaveislu um kvöldið. Um nóttina leið honum verulega illa. Hann taldi sig þurfa að kasta upp og komst inn á klósett en fór þá að pissa blóði. Rannsóknir leiddu í ljós að hann var með krabbamein en það var staðbundið og hægt að fjarlægja það með skurðaðgerð. „Svo fer ég í aðgerðina einhverjum 15 dögum síðar og þar er nýrað tekið. Það var meira en þeir áttu von á, þetta var komið í nýrnaleiðarana, nýrnahetturnar og þetta var bara hreinsað út. Ég var það ofboðslega heppinn að þetta var þannig krabbamein að þetta var bara aðgerð,” segir Gísli Gunnar.

Greiningin lagðist þungt á Gísla Gunnar og erfið endurhæfing tók við eftir aðgerðina. „Það var áfall, rosalegt áfall. Ég tók þetta mikið inn á mig. Þetta var mjög erfiður tími. Þetta voru lítil hænuskref sem maður tók eftir aðgerð,” segir Gísli Gunnar.

Næsta áfall reið fyrir 2013. Fyrstu viðvörunarbjöllurnar klingdu þegar hann var í göngutúr. „Ég var í gönguklúbb sem hét Éljagangur, með tveimur vinum mínum. Við löbbuðum alltaf út á strönd heima. Ég var alltaf voða brattur, labbaði hratt og gekk vel. Ég var alltaf að segja við strákana; „hvað komist þið ekkert áfram upp brekkurnar?” Svo fór allt í einu að draga svona svakalega af mér sjálfum. Ég fór að finna til einkenna, það fóru að koma dúndrur upp í hausinn og ég vissi ekki hvað var í gangi. Svo leið tíminn og þetta versnaði alltaf aðeins. 

Um miðjan maí fór lið Magna til Akureyrar að keppa á móti KA í bikarkeppninni. Gísli Gunnar segir að lið Magna hafi aðeins fengið tvö færi í leiknum en skorað úr þeim báðum og unnið leikinn og þar með slegið KA úr bikarnum. Gísli Gunnar fagnaði auðvitað sigrinum en stuðningsmenn KA höfðu orð á því að hann væri óvenju rólegur og liti ekki út fyrir að hafa æst sig mikið, var fölur að sjá. Eftir leik gekk Gísli Gunnar frá með stjórnarmanni í Magna. „Svo fæ ég alltaf meiri og meiri verki. Ég bið hann bara um að keyra mig heim, til tengdó. Ég kem þangað og þar koma þessir ofboðslegu verkir og ég hníg niður,” segir Gísli Gunnar. „Ég öskra á konuna og bið hana að keyra mig á sjúkrahús.” Verkirnir höfðu verið útskýrðir sem magaverkir tengdir stressi og álagi eftir krabbameinið. Gísli Gunnar átti erfitt með að trúa því en honum hafði verið sagt að hann væri of ungur til að glíma við hjartavandamál. „Svo kem ég í afgreiðsluna og þar hníg ég niður aftur,” segir Gísli Gunnar. 

Í ljós kom að hann hafði þarna fengið tvö minni háttar hjartaáföll. Hann var fluttur í snatri með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Í ljós kom að síðasta kransæðin var stífluð. Aftur tók við langt og strangt batatímabil en Gísli Gunnar viðurkennir að hafa ekki tekið nógu vel á veikindunum. „Ég tók þetta bara á hnefanum mestmegnis.” segir hann. „Ég hefði þurft að taka betur á þessu svona eftir á að hyggja. Maður var bara á þessum aldri. Maður var með fjölskyldu og að koma sér upp húsi. Það mátti ekkert klikka, það var bara þannig. Þess vegna fór maður svolítið geyst í málin. Sálfræðingurinn minn sagði; „þú átt alveg eftir að fá skellinn”, segir Gísli Gunnar.

Þessi tími er í hálfgerðri móðu en Gísli Gunnar tekur fram að hann hafi ekki gengið í gegnum veikindin einn. Öll fjölskyldan var með og í raun allir sem tengjast honum. Þau hjónin reyna að sjá spaugilegu hliðina á þessu öllu saman og segja gjarnan að hún sé orðin gráhærð á ástandinu en hann sjálfur hafi haldið í sinn hárlit. 

Haldið frá sjónum

Enn eitt áfallið dundi yfir í nóvember 2014. Gísli Gunnar var þá aftur kominn á sjó og í einum túrnum slæst möskvinn framan á bringuna á honum og í andlitið eftir að hafa losnað með hvelli. Honum tókst að staulast inn í koju þar sem hann kastaði nokkrum sinnum upp og taldi að hann hefði fengið vægan heilahristing. Hann reyndi að komast til að halda áfram að vinna en var alveg fastur í koju í 14-15 klukkutíma. Ekki kom til greina að fá að fara heim enda segir hann að veiðin hafi verið góð í þessum túr. Hann kláraði því vaktirnar sínar og fékk að vinna á úrtínslubandinu, enda mjög stífur eftir höggið. „Svo kem ég í land og fer í skoðanir. Það eru áverkar á hálsi, brjóstbaki, miklar tognanir og alls konar vesen,” segir Gísli Gunnar sem reiknaði með að verða fljótur að jafna sig. „Ég ætlaði alltaf bara að jafna mig á þessu á tveimur mánuðum og fara á sjó aftur. Eins og þetta væri ekki neitt neitt. Svo hef ég ekki farið á sjó aftur. Þetta versnaði og versnaði með tímanum. Þetta er ótrúlegt hvernig stoðkerfið í líkamanum bara hrundi, grindin skökk. Ég á í þessu alla daga,” segir Gísli Gunnar sem dreymir þó enn um að komast aftur á sjó. 

„Ég var ekki að sætta mig við þetta allt saman. Það fylltist alltaf meira og meira í pottinum og fór að sjóða upp úr. Það var allt á móti manni og maður var ekki alveg að takast rétt á við þetta. Ég bara hrundi alveg þarna 2016,” segir Gísli Gunnar um andlega höggið sem fylgdi. „Það var bara líkaminn og andlega hliðin. Það fór bara allt niður á við. Ég ákvað á þessum tíma þegar fjölskyldan var sofnuð eitt kvöldið að taka stöðuna. Ég fór niður að bryggju þar sem mér leið best og tók einn allsherjar fund með sjálfum mér. Ég var bara að tala við sjálfan mig og fara yfir stöðuna. Ég var í einhverja þrjá tíma og það gekk ýmislegt á í því samtali,” segir Gísli Gunnar.

Hann komst að þeirri niðurstöðu að hann þyrfti hjálp. „Þarna hrundi bara lífið og tilveran. Á þessum tímapunkti. Ég réð bara ekki við meira. Þá áttaði ég mig á því að ég þurfti að leita mér aðstoðar. Það var búið að sækja um fyrir mig á Reykjalundi og það var viðsnúningurinn sem ég þurfti. Það var staður sem tók vel á móti mér, bara frábær staður í alla staði,” segir Gísli Gunnar. Hann lætur vel af dvölinni á Reykjalundi og segir hana hafa hjálpað sér mikið. Hann nýtir sér auk þess huglæga atferlismeðferð. 

Gísli Gunnar fór líka í Virk þar sem hann hitti mikið af fagfólki og þar ákvað hann að skella sér í nám. Út frá náminu hóf hann að reka gistiheimili á Grenivík ásamt félaga sínum. „Það er gistiheimili sem félagi minn ákvað að við myndum reyna að fá okkur. Hann var bara að reyna að hafa ofan af fyrir mér. Þetta átti að vera skemmtilegt verkefni sem hefur undið upp á sig,” segir Gísli Gunnar um verkefnið. „Við keyptum þarna lítið hús á Grenivík við sjávarbakkann. Rosalega fallegt hús. Þetta átti að vera aðeins félagsskapur, að geta farið þarna og opnað einn kaldan Viking og verið saman. En þetta bara sprakk utan af sér. Við vorum að reyna að telja saman að við ætluðum að reyna selja 37 nætur á ári til að við gætum rekið húsið. En fyrsta árið fór vel yfir 200 nætur. Þetta hús er fallegt og sjarmerandi, slær í gegn hjá útlendingum. Þetta endaði náttúrulega þannig að ég gat ekkert verið við þetta þannig að við þurftum að fá okkur starfsmann sem er bara gott,” segir Gísli Gunnar.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í Spilaranum.