Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Verðmætum glósubókum Darwins líklega stolið

24.11.2020 - 15:00
Mynd með færslu
 Mynd: Julius Jääskeläinen - Flickr
Svo virðist sem tveimur glósubókum vísindamannsins Charles Darwin, sem setti fram þróunarkenninguna, hafi verið stolið úr bókasafni Cambrigde-háskóla. Bækurnar eru metnar á tugi milljóna króna og biður yfirbókavörður almenning um aðstoð við að endurheimta þær.

Í annarri bókanna má finna skissu eftir Darwin sem kallast Tré lífsins sem hann teiknaði er hann velti fyrir sér þróunarfræðilegum tengslum dýrategunda. Bækurnar eru engu stærri en póstkort og geymdar í litlu bláu skríni. Í þær skrifaði Darwin árið 1837, 22 árum áður en hann gaf út tímamótaverk sitt Uppruna tegundanna.

Mynd með færslu
 Mynd: Cambridge-háskóli
Glósubækurnar tvær.

Jessica Gardner, yfirbókavörður bókasafns Cambrigde-háskóla, segir málið hræðilegt, í samtali við breska ríkisútvarpið BBC. Eftir yfirgripsmikla leit í safninu, en hillur þess spanna yfir 200 kílómetra, er niðurstaðan einföld; bækurnar eru horfnar. Síðast sást til þeirra árið 2000 þegar þær voru teknar úr sérstakri hirslu til ljósmyndunar. Þá voru þær fluttar í ljósmyndastúdíó sem reist var til bráðabirgða vegna framkvæmda á lóð bókasafnsins. Við venjubundið eftirlit tveimur mánuðum síðar kom í ljós að bækurnar voru horfnar. Ekkert er vitað um afdrif þeirra upp frá því.

Gardner hefur staðið fyrir umfangsmikilli leit að bókunum en fyrst um sinn héldu forverar hennar að þær hefðu verið settar á rangan stað að lokinni ljósmyndun. Nokkrum sinnum hefur verið leitað að þeim en Gardner lét starfsfólk sitt gaumgæfa alla mögulega staði á bókasafninu og var leitað sérstaklega grannt í 189 kössum sem innihalda bækur, teikningar og bréf Darwins. En allt kom fyrir ekki.

Mynd með færslu
 Mynd: Cambridge-háskóli
Teikningin Tré lífsins.

Leitar á náðir almennings

Gardner hefur komist að þeirri niðurstöðu að bókunum hafi verið stolið og segir að mistök hafi verið gerð frá upphafi með að því að einblína á að þær hafi verið settar á rangan stað og því ekki gefinn gaumur að þær hafi verið teknar ófrjálsri hendi. Búið sé að endurskoða öryggi safnsins og reglur um aðgang að verðmætum gögnum hafa verið hertar.

Lögreglan í Cambridge-skíri hefur fengið málið á sitt borð og átt í samstarfi við Interpol vegna þess. Gardner biður fólk að hafa samband við bókasafnið eða lögreglu hafi það einhverja vitneskju um afdrif bókanna enda séu þær mikilvæg söguleg verðmæti.

Mikilvæg menningarverðmæti

Bækurnar eru mikilvæg heimild um tilraunir Darwins til að setja fram spurninguna um hvaðan dýrategundir koma og hver uppruni þeirra er, segir Jim Secord, prófessor emirítus í sagnfræði og vísindaheimspeki við Cambridge-háskóla. Hann skrifaði í þær þegar hann var 28 ára og nýkominn aftur til Lundúna eftir ferðalag til Galapagos-eyja í Kyrrahafi þar sem hann fékk innblástur að þróunarkenningunni. Secord segir bækurnar gefa innsýn í þankagang Darwins eftir ferðina og hvernig hann vann úr reynslu sinni af dýralífinu þar.

epa01394384 An undated picture shows the coast of  Santafe island, Ecuador. A year after the UNESCO decided to declare the Galapagos islands as a World Heritage Site in danger, according to Graham Watkins, head director of the Charles Darwin Foundation, 'there's still time' to introduce a new sustainble model of conservation and development in the archipelago.
 Mynd: epa
Galapagos-eyjar.
thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV